FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 26. ÁGÚST 2020

Vöruútflutningur í greiðslujöfnuði* var áætlaður 149,2 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi 2020 en vöruinnflutningur 158,4 milljarðar. Vöruviðskiptajöfnuður var því áætlaður neikvæður um 9,2 milljarða króna. Á sama ársfjórðungi var þjónustujöfnuður áætlaður jákvæður um 3,7 milljarða. Útflutt þjónusta var áætluð 66,4 milljarðar króna en innflutt þjónusta 62,6 milljarðar.

Á öðrum ársfjórðungi 2020 var því áætlað verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 215,6 milljarðar króna samanborið við 328,2 milljarða á öðrum ársfjórðungi árið áður. Á sama tíma var áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 221,0 milljarður samanborið við 319,5 milljarða á sama tíma árið áður. Vöru- og þjónustujöfnuður var því áætlaður neikvæður um 5,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi 2020 en var jákvæður um 8,7 milljarða á sama tíma 2019.

Fyrstu tvo ársfjórðunga ársins 2020 var vöru- og þjónustujöfnuðurinn neikvæður um 1,1 milljarð en var jákvæður um 43,5 milljarða á sama tíma 2019.

Útflutningstekjur af ferðalögum og samgöngum dragast verulega saman á milli ára
Verðmæti þjónustuútflutnings var 99,0 milljörðum króna lægra á öðrum ársfjórðungi 2020 en á sama tíma árið áður, eða 59,9% á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðalögum námu 7,1 milljarði og lækka á milli ára um 74,8 milljarða króna eða 91,3% á gengi hvors árs fyrir sig. Tekjur af samgöngum og flutningum lækka einnig mikið á milli ára, eða um 61,5% eða 31,2 milljarða króna á gengi hvors árs. Verulegur samdráttur í útflutningstekjum af farþegaflutningum með flugi vegur þar þyngst en samdrátturinn þar mælist 87,4% milli ára.

Verðmæti þjónustuútflutnings til Evrópu á öðrum ársfjórðungi 2020 nam 42,8 milljörðum króna eða 64,5% af heildarverðmæti þjónustuútflutnings. Þar af var þjónustuútflutningur til Bretlands 9,0 milljarðar króna, eða 13,6% af heildarverðmæti, og þjónustuútflutningur til Þýskalands 8,3 milljarðar eða 12,5% af heildarverðmæti. Á sama tíma nam verðmæti þjónustuútflutnings til Bandaríkjanna 13,1 milljarði króna eða 19,7% af heildarþjónustuútflutningi.

Verðmæti þjónustuinnflutnings dregst einnig mikið saman
Verðmæti þjónustuinnflutnings var 50,6 milljörðum króna lægra á öðrum ársfjórðungi 2020 en á sama tíma árið áður eða 44,7% á gengi hvors árs fyrir sig. Útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis námu 8,9 milljörðum króna og lækka um 42,8 milljarða á milli ára eða 82,7% á gengi hvors árs. Útgjöld vegna samgangna og flutninga lækka einnig mikið á milli ára, um 32,5% eða 7,3 milljarða króna á gengi hvors árs.

Athygli vekur að greiðslukortavelta Íslendinga vegna viðskipta erlendis lækkar mun minna en neysla Íslendinga á ferðalögum erlendis. Það skýrist af því að á meðan greiðslukortaveltan á ferðalögum erlendis minnkar verulega stendur greiðslukortaveltan í stað eða eykst vegna kaupa á vörum og annarri þjónustu (t.d. sjónvarpsþjónustu og tölvuþjónustu) í gegnum netið.

Verðmæti þjónustuinnflutnings frá Evrópu á öðrum ársfjórðungi 2020 nam 49,1 milljarði króna eða 78,5% af heildarverðmæti þjónustuinnflutnings. Þar af var þjónustuinnflutningur frá Hollandi (Niðurlandi) 7,5 milljarðar eða 11,9% af heildarinnflutningi og þjónustuinnflutningur frá Bretlandi 7,2 milljarðar króna eða 11,5% af heildarinnflutningi. Fyrir sama tímabil nam verðmæti þjónustuinnflutnings frá Bandaríkjunum 8,0 milljörðum króna eða 12,8% af heildarverðmæti innflutnings.

Mánaðarlegur vöru- og þjónustujöfnuður
Samhliða ársfjórðungsútgáfu á vöruviðskipta- og þjónustujöfnuði uppfærir Hagstofan gögn um mánaðarlegan vöruviðskipta- og þjónustujöfnuð á öðrum ársfjórðungi 2020. Í júní var áætlað verðmæti útflutnings fyrir vöru- og þjónustuviðskipti 73,9 milljarðar króna en áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 83,2 milljarðar króna. Vöru- og þjónustujöfnuður var því áætlaður neikvæður um 9,3 milljarða króna í júní 2020.

Endurskoðun á gögnum utanríkisverslunar er væntanleg
Þjóðhagsreikningar eru að taka upp nýtt verklag varðandi endurskoðun á gögnum eins og kom fram í frétt frá 28. febrúar 2020. Þar sem gögn utanríkisverslunar eru nýtt í útreikning þjóðhagsreikninga er samræmi æskilegt og því mun sama verklag verða tekið upp við útreikning vöru- og þjónustuviðskipta. Auk hefðbundinnar útgáfu bráðabirgðatalna og endanlegra talna verður verklag endurskoðunar þjónustuviðskipta eftirfarandi: Fyrir útgáfu þjónustuviðskipta við útlönd fyrir þriðja ársfjórðung sem fyrirhuguð er þann 26. nóvember nk. verða tímaraðir endurskoðaðar eftir þörfum. Verður þá leitast við að innleiða breytingar vegna nýrra eða betri gagna, nýrra eða endurbættra aðferða við mat á gögnum og endurskoðun staðla og flokkunarkerfa. Næsta meiriháttar endurskoðun er fyrirhuguð árið 2024 og síðan á fimm ára fresti eftir það.

*Samkvæmt stöðlum greiðslujafnaðar og þjóðhagsreikninga.

Verðmæti útflutnings og innflutnings á þjónustu 2019 og 2020
  Milljónir króna á gengi hvors árs Breytingar frá fyrra ári á gengi hvors árs, % 1.-2. ársfjórðungur
  2. ársfjórðungur 1. -2. ársfjórðungur
 2019202020192020
       
Útflutt þjónusta 165.369,3 66.351,4 297.974,9 179.639,5 -39,7
Samgöngur og flutningar 50.767,0 19.533,4 89.314,4 52.799,7 -40,9
Ferðalög 81.910,6 7.109,3 147.845,9 51.869,7 -64,9
Önnur viðskiptaþjónusta 8.772,3 11.831,9 17.457,9 22.988,1 31,7
Aðrir þjónustuliðir 23.919,4 27.876,8 43.356,6 51.981,9 19,9
         
Innflutt þjónusta 113.180,7 62.606,6 213.194,3 153.170,3 -28,2
Samgöngur og flutningar 22.346,3 15.086,2 40.835,5 31.900,6 -21,9
Ferðalög 51.767,9 8.946,4 91.698,3 41.998,6 -54,2
Önnur viðskiptaþjónusta 14.228,3 14.623,3 29.691,1 30.794,5 3,7
Aðrir þjónustuliðir 24.838,2 23.950,6 50.969,4 48.476,6 -4,9
           
Þjónustujöfnuður 52.188,6 3.744,8 84.780,5 26.469,3  

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1151 , netfang utanrikisverslun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.