Tekjur af útfluttri þjónustu á árinu 2024 námu 982,7 milljörðum króna en útgjöld vegna innfluttrar þjónustu 712,5 milljörðum. Fyrir vikið var þjónustujöfnuður við útlönd jákvæður um 270,2 milljarða króna samanborið við jákvæðan jöfnuð upp á 325,9 milljarða árið 2023 á gengi hvors árs.
Útflutningur á þjónustu stóð í stað á milli ára
Verðmæti þjónustuútflutnings árið 2024 var 0,3 milljörðum króna minna samanborið við árið 2023 og stóð því nánast í stað, á gengi hvors árs. Mesta aukningin í útflutningi á þjónustu má rekja til tekna af ferðalögum, þ.e. neyslu erlendra ferðamanna á Íslandi. Útflutningstekjur af ferðalögum námu 447,8 milljörðum árið 2024 og jukust um 4% samanborið við árið 2023. Á móti kemur að útflutningur á gjöldum fyrir notkun hugverka dróst saman um 33%.
Bandaríkin voru stærsta einstaka viðskiptaland í þjónustuútflutningi á árinu 2024 og námu útflutningstekjurnar 315,3 milljörðum króna árið 2024. Útflutningurinn á þjónustu til Bandaríkjanna jókst á milli áranna 2023 og 2024 um 3% á gengi hvors árs. Útflutningstekjur frá Bretlandi námu 86,1 milljarði króna árið 2024 og drógust þær saman um 13% á milli ára. Á sama tíma drógust útflutningstekjur til Þýskalands saman um 3% og námu þær 62,8 milljörðum.
Innflutningur á þjónustu jókst um 8% á milli ára
Árið 2024 var verðmæti þjónustuinnflutnings 55,4 milljörðum króna meira en árið 2023 eða 8% á gengi hvors árs. Útgjöld vegna ferðalaga námu 247,7 milljörðum árið 2024 og jukust um 10% samanborið við árið 2023. Útgjöld vegna samgangna og flutninga námu 125,3 milljörðum króna árið 2024 og jukust um 4% samanborið við árið áður. Sömu sögu er að segja af útgjöldum vegna fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu, sem jukust um 13% á milli ára, og útgjöldum vegna menningar, afþreyingar og persónuleg þjónusta þjónustu sem jukust um 22% á milli ára.
Stærstu viðskiptalönd í þjónustuinnflutningi á árinu 2024 voru sem fyrr Bandaríkin og Bretland. Gjöld vegna innflutnings á þjónustu frá Bandaríkjunum á árinu 2024 námu 90,2 milljörðum króna og jukust um 12% á milli ára. Á sama tíma námu gjöld vegna innflutnings á þjónustu frá Bretlandi 82 milljörðum og jukust um 2%. Í kjölfar Bretlands og Bandaríkjanna fylgdi svo Holland en innflutningur á þjónustu frá Hollandi jókst um 10% á milli ára.
Töflur með ítarlegri sundurliðun þjónustuflokka og landaskiptingu eru birtar á vef Hagstofunnar.