FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 07. SEPTEMBER 2020

Hagstofa Íslands birtir á vefsvæði Sögulegra hagtalna nú í fyrsta skipti árlegar tölur um magn og verðmæti útfluttra vara eftir vinnsluflokki og landfræðilegri skiptingu fyrir árin 1930-2019. Til að gera þetta efni sem aðgengilegast eru birtar tölur fyrir helstu viðskiptalönd Íslendinga í sögulegu ljósi að viðbættum stærri landa- og ríkjaheildum sem sýna í heild árlegan útflutning eftir vinnsluflokkum.

Samtals eru landaflokkarnir 26 og vinnslugreinaflokkarnir eru 14. Töflurnar sýna í raun samsetningu útfluttra vara eftir helstu viðskiptalöndum auk þeirra landa eftir heimshlutum (álfum) sem ekki er greint sérstaklega frá. Þær ættu því að nýtast vel áhugafólki um markaðssetningu íslensks útflutnings í sögulegu ljósi á aðgengilegan hátt.

Um gögnin
Fram til þessa hefur Hagstofan náð að birta sambærilegar tölur frá árinu 1988 en þá var skýrslugerð Hagstofunnar um utanríkisverslun endurskipulögð í grundvallaratriðum svo rækilega að samanburður við eldri ár varð að bíða um langa hríð, eða þar til nú. Þess ber þó að geta að samræming útflutnings fyrir árin 1930-1987 við síðari tíma er háð ýmsum annmörkum einkum vegna þess að sundurliðun upplýsinga á fyrra tímabilinu fór fram á grundvelli séríslensks flokkunarkerfis (Hagstofuflokkun) en frá og með 1988 urðu tollskrárnúmer grundvöllur skýrslugerðarinnar. Við þá breytingu var gerlegt að bæta upplýsingargjöfina um utanríkisverslunina stórfenglega, bæði fyrir inn- og útflutning, með samræmdri upplýsingagjöf.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.