FRÉTT UMHVERFI 09. MAÍ 2025

Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta sinn reikninga yfir verðmæti vöru og þjónustu sem tengist umhverfisverndandi starfsemi (e. Environmental Good and Service Sector; EGSS). Í almennu máli er þessi starfsemi gjarnan kölluð græna hagkerfið. Lykil mælistærð í þessum reikningunum er samtals tekjur fyrirtækja, fjárveitingar til ríkisstofnana, rannsóknarstyrkir og framlög til félagasamtaka sem tengjast græna hagkerfinu. Þessari mælistærð svipar til hugtaksins framleiðsluvirðis, eins og það er skilgreint í framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga, og er það hugtak því notað hér.

Auk framleiðsluvirðis er metinn virðisauki (e. gross value added) og fjöldi ársverka sem tengjast græna hagkerfinu. Þessi reikningur er hannaður sem hliðarreikningur við framleiðsluuppgjör þjóðhagsreikninga og byggir á samræmdri evrópskri skilgreiningu á vöru og þjónustu sem tilheyra græna hagkerfinu.

Skilgreining á þeirri vöru og þjónustu sem fellur undir græna hagkerfið tekur til fjölbreyttrar starfsemi sem unnin er þvert á hagkerfið. Dæmi um þjónustu er sorphirða, endurvinnsla, fráveituþjónusta, uppsetning á hreinsikerfum og eftirlit með umhverfisgæðum. Dæmigerð framleiðsla er framleiðsla á vistvænni einangrun, lífrænt ræktaðar landbúnaðarvörur, hreinsikerfi fyrir útblástur og orka sem framleidd er á endurnýjanlegan hátt.

Notkun sameiginlegrar aðferðafræði og skilgreininga gerir þessa tölfræði samanburðarhæfa við aðrar Evrópuþjóðir og stuðlar að betri innsýn í hvernig umhverfisvernd birtist í hagrænu samhengi.

Samkvæmt uppgjörinu nam framleiðsluvirði græna hagkerfisins 292 milljörðum króna árið 2023. Þetta samsvarar um 3,9% af heildar framleiðsluvirði hagkerfisins, samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands. Til samanburðar er þetta hlutfall á bilinu 1% (Malta og Ungverjaland) til 9% (Finnland) meðal EES-ríkjanna.

Ísland er í 12. sæti af 31 EES-ríki þar sem tölur liggja fyrir. Hérlendis vegur vistvæn orka þungt í græna hagkerfinu, en einnig er bygging orkuvirkjana, fráveitukerfa og hljóðvarnargarða áberandi. Aftur á móti er framleiðsla sem er mikilvæg öðrum löndum, svo sem lífrænn landbúnaður, framleiðsla á vélbúnaði sem tengist umhverfisvernd og framleiðsla á eldivið úr ræktuðum skógum, lítil hér á landi. Slík framleiðsla er hins vegar umfangsmikil í ríkjum eins og Ítalíu, Austurríki og Finnlandi.

Reikningarnir sýna einnig að 4.841 ársverk tengdust græna hagkerfinu árið 2023, sem samsvarar um 2,2% af heildarfjölda starfandi samkvæmt vinnumagnstölum þjóðhagsreikninga.

Til samanburðar liggur hlutfall ársverka meðal ESS-ríkja á bilinu 1% (Rúmenía og Ungverjaland) til 5% (Finnland). Ísland er í 24.-25. sæti af þeim 32 hagkerfum þar sem tölur liggja fyrir. Staða Íslands í þessari röðun skýrist af því að lykilframleiðsla hérlendis, framleiðsla orku með vistvænum leiðum, krefst tiltölulega fárra starfsmanna til að skila umtalsverðu framleiðsluvirði. Lífræn ræktun, sem er mikilvæg í öðrum löndum er hins vegar nokkuð mannfrek í samanburði við framleiðsluvirði.

Í tölunum er einnig að finna nánara niðurbrot á þátttöku atvinnugreina í græna hagkerfinu og þó nokkra skiptingu eftir flokkum umhverfisverndar og auðlindastjórnunar. Einnig er gerður greinarmunur á hvort framleiðslan sé til markaðssetningar eða til almannaheilla (utan markaðar).

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.