FRÉTT UMHVERFI 01. FEBRÚAR 2021

Efnisnotkun í hagkerfi Íslands fór úr 11.322 kílótonnum árið 2018 niður í 10.900 kílótonn árið 2019 sem samsvarar 32,5 tonnum á einstakling árið 2018 og 30,5 tonnum árið 2019. Þessi mælikvarði er skilgreindur sem innflæði efnis inn í hagkerfið úr náttúrunni auk innflutnings að frádregnum útflutningi.

Efnisnotkun á einstakling á Íslandi var svipuð því sem gerðist í Finnlandi (32,5 tonn á einstakling árið 2019) og Eistlandi (30,4 tonn á einstakling árið 2019). Til samanburðar var meðal efnisnotkun innan Evrópusambandsins í kringum 14 tonn á einstakling. Há efnisnotkun á Íslandi kemur til vegna mikillar notkunar jarðefna í uppbyggingu innviða (bygginga og vega) á meðan að hátt gildi í Finnlandi kemur til vegna málmnáma en í Eistlandi er mikil framleiðsla orku úr kolum og jarðgasi.

Vöruviðskipti, eða mismunur innflutnings og útflutnings, var 2.984 kílótonn árið 2019 og því aðeins um fjórðungur af heildarefnisnotkun. Heildarmagn innfluttrar vöru inn í hagkerfið var 11,3% minni árið 2019 (5.262 kílótonn) en árið 2018 (5.935 kílótonn). Samdráttur varð í öllum efnisflokkum en mest munar um minni innflutning á jarðolíuefnum (úr 1.814 kílótonnum í 1.429 kílótonn) og í efnasamböndum utan málma (úr 862 kílótonnum í 724 kílótonn).

Samanlagt magn útfluttrar vöru var 8,9% minni árið 2019 (2.278 kílótonn) en árið 2018 (2.495 kílótonn). Hér munar mestu um samdrátt í útflutningi málma (úr 1.053 kílótonnum í 955 kílótonn) en útflutningur á efnasamböndum utan málma jókst um 28 kílótonn á milli 2018 og 2019.

Talnaefni úr efnisflæðireikningum hagkerfisins hefur verið uppfært til ársins 2019, en nánari umfjöllun um innihald þessara reikninga er að finna í greinargerð sem gefin var út ásamt fyrstu útgáfu talnanna árið 2020.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278 , netfang umhverfi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.