Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út þjóðhagsspá. Spáin nær til ársins 2016. Í henni er m.a. gert ráð fyrir að landsframleiðsla aukist um 2,5% á þessu ári og 3,1% 2012. Þá eykst einkaneysla og fjárfesting þegar á þessu ári og næstu ár ef spáin gengur eftir. Samneysla dregst aftur á móti saman um 2,6% á árinu en tekur við sér að nýju árið 2014.

Í spánni segir að vöxtur landsframleiðslu á spátímabilinu verði knúinn áfram af aukinni einkaneyslu og fjárfestingu enda þótt samneysla dragist saman nú og á næsta ári. Ekki er gert ráð fyrir að gengi krónunnar styrkist mikið á næstu árum en það stuðlar áfram að afgangi í vöru- og þjónustuviðskiptum.

Verðbólga á fyrri hluta þessa árs hefur verið nokkru meiri en áður var reiknað með og laun hækkað meira og fyrr en áður var spáð. Verðbólga verður því hærri 2011 og 2012 en gert var ráð fyrir í fyrri spám en verður eftir það í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Reiknað er með að atvinnuleysi verði áfram nokkuð hátt en lækki stöðugt með auknum hagvexti.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 4. apríl síðastliðinn og er ráðgert að gefa út næstu spá í nóvember.

Þjóðhagsspá, sumar 2011 - Hagtíðindi