Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2025 til 2030.
Verg landsframleiðsla dróst saman um 0,7% á síðasta ári. Í ár eru horfur á að hagvöxtur verði 2,2% og að hann verði drifinn áfram af innlendri eftirspurn. Árið 2026 er reiknað með að verg landsframleiðsla aukist um 2,5% sem má að mestu rekja til bata í utanríkisviðskiptum en einnig aukningu í neyslu. Árið 2027 er gert ráð fyrir 2,8% hagvexti þar sem aukning landsframleiðslunnar verður á breiðari grunni.
Horfur eru á að einkaneysla aukist um 3,1% í ár. Hún jókst á fyrsta fjórðungi 2025 og vísbendingar eru um áframhaldandi vöxt á árinu. Sterk fjárhagsstaða heimila, aukinn kaupmáttur og minnkandi fjármagnskostnaður munu styðja við einkaneyslu á spátímanum. Reiknað er með að samneysla vaxi um 1,6% í ár en næstu ár er gert ráð fyrir heldur hægari vexti eða 1,1% árið 2026.
Reiknað er með 5% aukningu fjárfestingar í ár. Aukningin skýrist að miklu leyti af fjárfestingu í tölvubúnaði fyrir gagnaver. Á næsta ári er gert ráð fyrir 4,5% samdrætti sem skýrist af grunnáhrifum vegna tölvubúnaðar en gert er ráð fyrir að önnur fjárfesting aukist lítillega, m.a. vegna batnandi fjármögnunarskilyrða og að framkvæmdir tengdar orkuöflun verði þá komnar á fullt skrið.
Áætlað er að útflutningur aukist um 2,9% í ár og um 2,5% á næsta ári. Búist er við að útflutningur vegna þjónustu erlendra ferðamanna hérlendis verði álíka og á síðasta ári. Útlit er fyrir halla í vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd í ár sem nemur 1,4% af vergri landsframleiðslu en að þau skili afgangi á næsta ári.
Gert er ráð fyrir að verðbólga hjaðni áfram á spátímanum. Aðhaldssöm peningastefna, gengisstyrking krónunnar og langtímakjarasamningar styðja við hjöðnun verðbólgunnar þó á móti vegi að enn er þróttur í hagkerfinu. Reiknað er með að vísitala neysluverðs hækki um 3,8% að meðaltali í ár og nálgist verðbólgumarkmið árið 2027. Reiknað er með að launavísitala að raunvirði hækki um 2,8% á árinu. Hægst hefur á fólksfjölgun á vinnumarkaði og eftirspurn eftir vinnuafli minnkað sem bendir til þess að vinnumarkaðurinn sé að færast nær jafnvægi eftir tímabil mikillar spennu.
Óvissa hefur aukist um horfur vegna viðskiptastríðs og ófriðar í Mið-Austurlöndum.
Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 25. mars og er næsta útgáfa fyrirhuguð í nóvember nk.
Þjóðhagsspá — Hagtíðindi