FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 23. FEBRÚAR 2018

Hagstofa Íslands hefur gefið út endurskoðaða þjóðhagsspá að vetri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin spannar árin 2017–2023.

Hægt hefur á hagvexti frá árinu 2016 en áætlað er að hagkerfið hafi vaxið um 3,8% árið 2017. Meiri kraftur var í þjóðarútgjöldum sem áætlað er að hafi aukist um rúmlega 7% á síðasta ári. Talið er að einkaneysla hafi vaxið um 7,7% og samneysla um 2,8%. Meðal annars í ljósi uppfærðra fjárhagsáætlana sveitarfélaga og fjárlaga 2018 er gert ráð fyrir að fjárfesting hafi vaxið nokkuð meira en í fyrri spá eða um 9,3%. Talið er að vöxtur útflutnings hafi verið 3,5% en innflutnings 11%.

Spáð er 2,9% aukningu landsframleiðslu á þessu ári sem er að miklu leyti drifin áfram af vexti einkaneyslu. Reiknað er með að atvinnuvegafjárfesting dragist saman vegna minni fjárfestingar í skipum og flugvélum, en á móti vex íbúðafjárfesting um 19% og opinber fjárfesting um nærri 12%. Gert er ráð fyrir jákvæðum vöru- og þjónustujöfnuði við útlönd en að vöxtur útflutnings verði um 4,1% og innflutnings um 5,7%. Næstu ár er reiknað með að hagvöxtur verði í kringum 2,5–2,8%.

Verðlag hækkaði að jafnaði um 1,8% á síðasta ári. Annars vegar hélt sterkt gengi aftur af verðbólgu en hækkun á húsnæðisverði ýtti undir hana. Reiknað er með að verðbólga verði lítillega yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanks árin 2018 og 2019 en nálgist það svo í kjölfarið.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 3. nóvember sl. og er næsta útgáfa fyrirhuguð í maí.

Þjóðhagsspá að vetri, endurskoðun — Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.