FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 30. NÓVEMBER 2023

Samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga er áætlað nafnvirði vergrar landsframleiðslu (VLF) um 1080,3 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi þessa árs og vöxtur hennar á föstu verðlagi (hagvöxtur) um 1,1% miðað við sama tímabil í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins mælist VLF að raunvirði um 4,2% meiri en á sama tíma í fyrra.

Áætlað er að þjóðarútgjöld á þriðja ársfjórðungi hafi dregist saman um 1,2% samanborið við þriðja ársfjórðung í fyrra. Af undirliðum þjóðarútgjalda er áætlað að einkaneysla hafi dregist saman að raunvirði um 1,7% og fjármunamyndun um 4,3%. Hins vegar er talið að samneysla hafi aukist um 2,3% að raunvirði samanborið við þriðja ársfjórðung 2022.

Á þriðja ársfjórðungi er áætlað að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar hafi mælst jákvætt um 2,2% og að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði hafi numið um 5,2% af VLF samanborið við 4,8% á sama ársfjórðungi í fyrra.

Niðurstöður þjóðhagsreikninga gefa til kynna að árstíðaleiðrétt landsframleiðsla hafi dregist saman um 3,8% að raunvirði á milli annars og þriðja ársfjórðungs þessa árs.

VLF á föstu verðlagi hærri en fyrir faraldurinn
Þegar kórónuveirufaraldurinn reið yfir árið 2020 og sóttvarnaraðgerðir voru við lýði dró úr umsvifum í hagkerfinu sem merkja má á þróun VLF á þeim tíma. Niðurstöður þjóðhagsreikninga gefa til kynna að VLF á föstu verðlagi hafi ekki mælst meiri síðan faraldurinn reið yfir og á þriðja ársfjórðungi var hún um 4,8% hærri en á sama tíma árið 2019.

Samdráttur í einkaneyslu um 1,7% á þriðja ársfjórðungi
Á þriðja ársfjórðungi 2023 dróst einkaneysla saman um 1,7% að raunvirði sem er skarpur viðsnúningur borið saman við sama tímabil árið 2022. Á fyrstu níu mánuðum líðandi árs jókst einkaneysla um 1,3% að raunvirði frá fyrra ári. Útgjöld Íslendinga erlendis sýna áframhaldandi samdrátt og einnig hægðist á annarri innlendri neyslu. Töluverður samdráttur mælist í kaupum ökutækja eða 5,2% en það er liður sem vegur talsvert í neysluútgjöldum heimilanna.

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar jákvætt og afgangur jókst á milli ára
Vöxtur útflutnings á þriðja ársfjórðungi þessa árs er áætlaður 0,5% miðað við sama tíma fyrir ári en líkt og undanfarna ársfjórðunga má rekja vöxtinn til útfluttrar þjónustu sem jókst um 7,4% að raunvirði frá fyrra ári. Frá fyrri ársfjórðungi reiknast um 3,1% raunvirðisminnkun árstíðaleiðrétts útflutnings á þriðja ársfjórðungi. Talið er að samdráttur heildarinnflutnings á milli ára hafi verið um 3,0% á þriðja ársfjórðungi þessa árs en líkt og síðastliðna ársfjórðunga mælist vöxtur í innfluttri þjónustu. Frá öðrum ársfjórðungi þessa árs mælist um 2,5% aukning að raunvirði í árstíðaleiðréttum innflutningi.

Áætlanir fyrir utanríkisviðskipti gefa til kynna að þau hafi skilað jákvæðu framlagi til hagvaxtar á þriðja ársfjórðungi eða sem nemur um 2,2% og er því um áframhald að ræða frá öðrum ársfjórðungi líðandi árs. Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði mælist um 56,1 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi eða sem nemur um 5,2% af VLF samanborið við um 4,8% á sama tíma í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs reyndist halli á vöruskiptajöfnuði um 94,1 ma.kr. en um 150,3 ma.kr. afgangur á þjónustujöfnuði.

Samneysla jókst um 2,3% á þriðja ársfjórðungi
Áætlað er að vöxtur samneyslu hafi verið um 2,3% á þriðja ársfjórðungi 2023 borið saman við sama tímabil í fyrra en vöxtinn má að miklu leyti rekja til kaupa hins opinbera á vörum og þjónustu. Fyrstu níu mánuði þessa árs mælist vöxtur samneyslu 1,7% samanborið við sama tímabil árið 2022. Nánar er fjallað um fjármál hins opinbera í niðurstöðum sem Hagstofan birtir 7. desember næstkomandi.

Samdráttur fjármunamyndunar 4,3%
Á þriðja ársfjórðungi þessa árs er talið að fjármunamyndun í heild hafi dregist saman um 4,3% samanborið við sama tímabil fyrra árs. Fjármunamyndun atvinnuveganna hafi hins vegar aukist um 3,1% að raunvirði samanborið við þriðja ársfjórðung fyrra árs.

Mestur vöxtur mælist í starfsemi fjármála- og vátryggingastarfsemi sem rekja má til grunnáhrifa frá sama tímabili í fyrra þegar færsla fasteigna yfir til hins opinbera átti sér stað. Fyrstu níu mánuði ársins er áætlað að fjármunamyndun atvinnuvega hafi aukist um 4,7% að raungildi borið saman við sama tímabil á síðasta ári.

Áætlað er að fjármunamyndun hins opinbera hafi dregist saman um 23,2% að raunvirði, að hluta til vegna grunnáhrifa af fyrrgreindri yfirfærslu frá atvinnuvegum. Fyrstu níu mánuði ársins 2023 er áætlað að fjármunamyndun hins opinbera hafi dregist saman um 13,3% að raungildi borið saman við sama tímabil árið 2022.

Líkt og undanfarið reiknast samdráttur í fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis á milli ára. Áætlaður samdráttur er um 5,8% miðað við þau grunngögn og aðrar vísbendingar sem aflað er til matsins. Á fyrstu níu mánuðum ársins mælist samdráttur fjármunamyndunar í íbúðarhúsnæði um 7,2%. Þrátt fyrir viðvarandi samdrátt í nærri þrjú ár er hlutfall fjármunamyndunar í íbúðarhúsnæði af VLF um 4,5% sem liggur í meðaltali ársfjórðunga frá árinu 1995.

Birgðaaukning í sjávarafurðum
Á þriðja ársfjórðungi hækkaði heildarverðmæti birgða um 13,6 milljarða króna á verðlagi ársins á milli samliggjandi ársfjórðunga sem að mestu má rekja til aukinnar birgðastöðu sjávarafurða. Hins vegar mælist birgðaminnkun í olíu og annarri rekstrarvöru á milli ársfjórðunga.

Fjölgun vinnustunda jókst um 3,8%
Áætlað er að heildarfjöldi unninna stunda hafi aukist um 3,8% á þriðja ársfjórðungi 2023 borið saman við sama tímabil árið 2022. Starfandi einstaklingum fjölgaði á sama tímabili um 4,2%.

Vöxtur VLF á fyrstu níu mánuðum ársins
Áætlað er að VLF á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 hafi aukist um 4,2% að raunvirði borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2022. Þjóðarútgjöld jukust á sama tíma um 1,4% en þar af reyndist vöxtur einkaneyslu um 1,3%, samneyslu um 1,7% á meðan fjármunamyndun dróst saman um 1,3%. Útflutningur jókst um 5,7% að raunvirði en innflutningur var óbreyttur.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.