FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 29. ÁGÚST 2025

Samkvæmt fyrsta mati er áætlað að landsframleiðsla hafi dregist saman um 1,9 % að raunvirði á öðrum ársfjórðungi 2025 miðað við sama tímabil fyrra árs. Framlag utanríkisviðskipta vegur þyngst í samdrætti en aukinn halli á vöru- og þjónustuviðskiptum samanborið við fyrra ár veldur því að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar er neikvætt um 5,8% á öðrum ársfjórðungi.

Aukin þjóðarútgjöld vega á móti samdrætti í utanríkisviðskiptum en fyrsta mat gerir ráð fyrir að fjármunamyndun hafi aukist um 8,3%, einkaneysla um 3,1% og samneysla um 0,3%, allt að raunvirði. Að teknu tilliti til birgðabreytinga er áætlað að þjóðarútgjöld á öðrum ársfjórðungi hafi aukist um 3,9% að raunvirði miðað við sama tímabil fyrra árs.

Leiðrétt fyrir árstíðabundnum sveiflum er áætlað að landsframleiðsla hafi dregist saman um 0,7% að raunvirði samanborið við fyrsta ársfjórðung 2025.

Fyrstu sex mánuði ársins er áætlað að landsframleiðslan hafi aukist um 0,3% að raunvirði borið saman við landsframleiðslu fyrstu sex mánuði ársins 2024.


Einkaneysla jókst um 3,1%
Einkaneysla á öðrum ársfjórðungi jókst um 3,1% að raunvirði miðað við sama tímabili fyrra árs. Innlend neysla jókst almennt þar sem vöxtur var í kaupum heimilanna á þjónustutengdum neysluvörum. Aukning var í kaupum heimilanna á bifreiðum annan árfjórðunginn í röð eftir samdráttarskeið síðustu misseri. Einnig var töluverður vöxtur í einkaneyslu vegna útgjalda Íslendinga á ferðalögum erlendis ásamt vægum vexti í húsnæðislið.

Samneysla jókst um 0,3% á öðrum ársfjórðungi
Samneysla hins opinbera er talin hafa aukist um 0,3% að raunvirði á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tímabil fyrra árs. Að nafnvirði er talið að samneyslan hafi aukist um 9,2% frá fyrra ári en á sama tíma er áætlað að verðbreyting hafi verið um 8,8% sem veldur 0,3% magnbreytingu. Nánar verður fjallað um fjármál hins opinbera í útgáfu þann 18. september næstkomandi.

Aukning í fjármunamyndun um 8,3%
Fjármunamyndun er talin hafa aukist um 8,3% að raunvirði á öðrum ársfjórðungi 2025 samanborið við sama ársfjórðung fyrra árs. Þar af er talið að fjármunamyndun atvinnuveganna hafi aukist um 13,6% að raunvirði og fjármunamyndun hins opinbera um 6,1%. Hins vegar er talið að fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis hafi dregist saman um 8,9% á sama tímabili. Síðustu þrjá ársfjórðunga hefur fjármunamyndun atvinnuveganna aukist talsvert vegna umtalsverðs innflutnings á tölvubúnaði fyrir gagnaver. Nokkur óvissa er sem fyrr um fjármunamyndun hins opinbera í niðurstöðum annars ársfjórðungs.

Aukinn halli á utanríkisviðskiptum
Áætlað er að vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd hafi verið neikvæð um 73,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi sem er töluvert meira halli en á sama ársfjórðungi síðasta árs þegar hallinn nam 22,9 milljörðum króna. Aukinn halli á utanríkisviðskiptum hefur þannig neikvæð áhrif á landsframleiðsluna á öðrum ársfjórðungi um 5,8%.

Birgðabreytingar drógust saman um 11 milljarða
Heildarverðmæti birgða lækkaði um 10,9 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi 2025 miðað við fyrsta ársfjórðung. Mest vægi hafði neikvæð breyting í sjávarútvegi, sem nam 10,3 milljörðum króna. Þrátt fyrir það er samdrátturinn minni en sem áður hefur sést á öðrum ársfjórðungi undangenginna ára. Olíubirgðir jukust um 321 milljónir króna, en birgðir í áli, álafurðum og kísilmálmi drógust saman um 991 milljónir króna. Framlag birgðabreytinga til hagvaxtar á öðrum ársfjórðungi 2025 var 0,1%.

Vinnumagn dregst saman um 4,1% á milli ára
Áætlað er að heildarfjöldi unninna stunda hafi dregist saman um 4,1% á öðrum ársfjórðungi 2025 samanborið við annan ársfjórðung 2024. Hér er rétt að setja fyrirvara um að þessi gögn eru ekki árstíðaleiðrétt og hafa páskar mikil áhrif á ársfjórðungslegar tölur. Páskar voru núna á öðrum ársfjórðungi en á fyrsta ársfjórðungi árið 2024. Stefnt er að því að birta árstíðaleiðréttar tölur um vinnumagn samhliða næstu birtingu þjóðhagsreikninga í lok nóvember næstkomandi.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst saman um 0,7%
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst saman að raunvirði um 0,7% á öðrum ársfjórðungi 2025 miðað við fyrsta ársfjórðung 2025. Einkaneysla jókst um 0,5% að árstíðaleiðréttum mælikvarða, samneysla dróst saman um 0,3%, og fjármunamyndun hækkaði um 3,9%. Á sama tímabili minnkaði árstíðaleiðréttur útflutningur um 3,0% en innflutningur jókst um 1,4%.

Endurskoðun á áður birtum tölum
Heildarendurskoðun á tímaröðum þjóðhagsreikninga var framkvæmd samhliða síðustu birtingu á þjóðhagsreikningum í lok maí síðastliðnum. Slíkar endurskoðanir eru almennt framkvæmdar á 5 ára fresti og miða að því að innleiða nýjar aðferðir, bæta gögn og tryggja samræmi við alþjóðlega staðla. Einn af þeim liðum sem gerðar voru breytingar á var uppfærsla á vísitölum sem notaðar er til staðvirðingar þjónustuviðskipta við útlönd. Nú hefur komið í ljós að það misfórst innleiðing á nýrri undirvísitölu sem notuð er til að staðvirða útflutning í ferðalagalið þjónustuviðskipta. Leiðrétting hefur verið gerð á þessari vísitölu sem hefur áhrif á tímaraðir þjóðhagsreikninga aftur til 2011.

Samhliða hverri birtingu á þjóðhagsreikningum eru gerðar endurskoðanir á áður birtum tölum. Slíkar endurskoðanir flokkast sem reglubundnar endurskoðanir og eru gerðar þegar ítarlegri gögn berast um ákveðna þætti hagkerfisins. Samhliða því að fyllri gögn hafa borist hafa niðurstöður fyrir árin 2022-2024 verið uppfærðar. Samkvæmt bráðabirgðatölum* fyrir 2024 nam landsframleiðsla ársins 4.588 milljörðum króna og dróst saman að raunvirði um 1% frá fyrra ári samanborið við 5,2% aukningu árið áður. Að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 1,9%, dróst landsframleiðsla á mann saman um 2,8% að raunvirði árið 2024.

Gögn um framleiðsluuppgjör hafa verið uppfærð á vef Hagstofu Íslands samhliða endurskoðun á ráðstöfunaruppgjöri.


*Um tveimur mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur birtir Hagstofa Íslands áætlaða landsframleiðslu fjórða ársfjórðungs næstliðins árs og um leið fyrstu áætlun um landsframleiðslu ársins í heild. Um er að ræða samtölu ársfjórðungslegra mælinga samkvæmt ráðstöfunaraðferð. Fyrstu niðurstöður sem skilgreindar eru sem bráðabirgðatölur eru birtar um átta mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur. Niðurstöður þjóðhagsreikninga eru skilgreindar sem bráðabirgðatölur þar til um 26 mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur en geta engu að síður tekið breytingum eftir því sem nauðsyn krefst.

Talanefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.