Hagstofan gefur nú út Hagtíðindi um greiningu á skattframtölum einstaklinga fyrir árið 2012 í kjölfar skattálagningar sem lá fyrir í byrjun ágúst 2013. Greiningin leiðir í ljós að skuldir jukust um 1,9% frá fyrra ári en eignir og tekjur jukust enn meira; eignir um 6,2% og tekjur um 6,8%.

Skuldir einstaklinga voru 1.922 milljarðar króna í árslok 2012 og jukust um 1,9% frá fyrra ári. Skuldir drógust mest saman hjá fjölskyldum á aldrinum 25–29 ára, um 7,4%, en jukust mest hjá 67 ára og eldri, eða um 9,6%. Af skuldsettum fjölskyldum skuldaði helmingur þeirra 5,8 milljónir króna eða minna, og 90% skuldsettra fjölskyldna skulduðu minna en 31,7 milljónir króna. Hjón með börn skulduðu mest allra fjölskyldugerða, um 25,1 milljón króna að meðaltali, og fjölskyldur á aldrinum 40–49 ára skulduðu mest allra aldurshópa, að meðaltali 20 milljónir króna.

Heildareignir einstaklinga voru 3.969 milljarðar króna í árslok 2012 sem er 6,2% aukning frá fyrra ári. Hjón án barna áttu mestar eignir í árslok, samtals um 1.595 milljarða króna, og hækkuðu eignir þeirra um 7,6% frá fyrra ári. Þá voru fjölskyldur á aldrinum 60 ára og eldri eignamestar í árslok 2012 með 42% allra eigna, samtals að verðmæti 1.666 milljarðar króna, en meðaleign þeirra hækkaði jafnframt mest allra aldurshópa, um 4,8%.


 
Skuldahlutfallið lækkaði úr 50% í 48% á milli ára og var hæst hjá fjölskyldum á aldrinum 25–29 ára, eða 114%, en var lægst hjá aldurshópnum 67 ára og eldri, eða 14%. Skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum lækkaði úr 237% í 228% og hlutfall vaxtagjalda af ráðstöfunartekjum var komið í 10% í árslok 2012.

Fjölskyldum með jákvæða eiginfjárstöðu fjölgaði um 4% á milli ára og þær sem höfðu  sterkustu eiginfjárstöðuna, þ.e. voru í hæstu eiginfjártíundinni, áttu að meðaltali 78,5 milljónir króna í eigið fé.

Tekjur einstaklinga jukust um 6,8% frá fyrra ári og námu 1.083 milljörðum króna. Níu af hverjum tíu fjölskyldum voru með 12,4 milljónir króna eða minna í árstekjur. Hæsta tekjutíundin hafði að meðaltali 19,0 milljónir króna í heildarárstekjur, skuldaði 24,8 milljónir króna að meðaltali og átti eignir sem námu 63,6 milljónum króna að meðaltali. Ráðstöfunartekjur voru hæstar hjá hjónum með börn, 8,5 milljónir króna að meðaltali, en einstæðir foreldrar höfðu 3,8 milljónir króna að meðaltali í ráðstöfunartekjur og hækkuðu um 6% að meðaltali frá fyrra ári, mest allra fjölskyldugerða.

Skuldir, eignir og eiginfjárstaða einstaklinga 2012 - Hagtíðindi

Talnaefni