Hagstofan gefur nú út Hagtíðindi um niðurstöður af ítarlegri athugun á skuldum, eignum og eiginfjárstöðu einstaklinga sem unnin er úr skattframtölum áranna 1997 til 2011. Auk þess eru birtar ítarlegar tölur um þessi málefni fyrir sama tímabil á vef Hagstofunnar. Ætlunin er að birta samsvarandi niðurstöður á ári hverju úr skattframtölum þegar skattálagningu er lokið.

Á meðal þess sem fram kemur í heftinu er að í lok árs 2011 skulduðu fjölskyldur á aldrinum 35–49 ára mest allra aldurshópa. Samanlagðar skuldir þeirra voru 809,3 ma.kr. sem samsvarar um 43% af heildarskuldum og höfðu dregist saman um 7,6% á milli ára. Um 19% fjölskyldna skulduðu ekkert í árslok 2011. Af skuldsettum fjölskyldum skuldaði helmingur 6 milljónir króna eða minna og 90% skuldsettra fjölskyldna skulduðu minna en 31,4 m.kr. Samanlagðar skuldir allra, að frátalinni hæstu skuldatíundinni, voru 1.119 ma.kr. eða 59% heildarskulda. Fjölskyldur sem tilheyrðu hæstu skuldatíundinni, þ.e. þær fjölskyldur sem skulduðu mest, skulduðu samanlagt 767 ma.kr. eða tæp 41% af heildarskuldum. Þessar fjölskyldur voru einkum hjón með börn (57%) og hjón með engin börn á framfærslu (23%). Hjón með börn höfðu hæsta meðaltal skulda, einkum eftir árið 2008.

Skuldir, eignir og eiginfjárstaða einstaklinga 1997–2011 - Hagtíðindi

Talnaefni