FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 11. JÚNÍ 2021

Áætlað að ráðstöfunartekjur heimilisgeirans hafi aukist um 8,1% á fyrsta ársfjórðungi 2021 borið saman við sama ársfjórðung í fyrra. Áætlað er að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið tæplega 1,1 milljónum króna á ársfjórðungnum og hafi aukist um 7% frá sama ársfjórðungi í fyrra. Þá er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila hafi aukist um 2,6% á sama tímabili.

Hagstofan birtir nú í fyrsta skipti bráðabirgðatölfræði um ráðstöfunartekjur heimilageirans samkvæmt aðferðafræði þjóðhagsreikninga á ársfjórðungsgrundvelli frá fyrsta ársfjórðungi 2003. Birtingin er í beinu framhaldi af fyrstu bráðabirgðatölum á ársgrundvelli, sem birtar voru 26. apríl síðastliðinn, en hingað til hafa fyrstu niðurstöður á ársgrundvelli birst um 15 mánuðum eftir lok viðmiðunartímabils. Eftir sem áður mun Hagstofan birta endurskoðaðar niðurstöður þegar fyrir liggja endanlegri upplýsingar, meðal annars úr skattframtölum fyrirtækja og einstaklinga.

Ráðstöfunartekjur heimilanna 2020-2021
Milljónir króna2020-Á12020-Á22020-Á32020-Á42021-Á1
1. Tekjur658.959698.695698.991715.183712.357
D.1 Laun385.241396.160407.833408.796401.846
D.4 Eignatekjur42.57542.53342.49842.51342.890
- D.41 þar af vaxtatekjur15.21916.29316.47617.88515.976
D.62 Lífeyrir og félagslegar bætur105.535136.468121.229129.038129.910
Aðrar tekjur1125.608123.534127.431134.835137.710
2. Gjöld295.207312.197315.888318.172319.217
D.4 Eignagjöld23.00021.58123.20325.59923.966
- D.41 þar af vaxtagjöld22.43121.04922.63424.97523.400
D.5 Skattar á laun109.513112.727116.097116.256114.397
D.61 Tryggingagjöld109.658110.220112.038115.243112.970
Önnur gjöld253.03667.66964.55061.07467.885
B.6G Ráðstöfunartekjur (1. - 2.)363.752386.498383.103397.011393.140
Ráðstöfunartekjur á mann (í þús. kr.)9941.0541.0411.0771.063
Kaupmáttur ráðst.tekna á mann (%)4,6%2,3%-0,5%3,9%2,6%
1Aðrar tekjur innihalda framleiðsluvirði (P.1) og aðrar tekjutilfærslur (D.7) tekjumegin.
2
Önnur gjöld innihalda aðföng (P.2), laun og launatengd gjöld (D.1), skatta á framleiðslu og innflutning (D.2) og aðrar tekjutilfærslur (D.7) gjaldamegin.

Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 23% á fyrsta ársfjórðungi
Heildartekjur heimilanna jukust um 8% á fyrsta ársfjórðungi 2021, samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Þeir liðir sem vega þyngst í aukningu ráðstöfunartekna heimilisgeirans eru lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur sem samanlagt jukust um 23% og námu 18% af heildartekjum heimilanna á tímabilinu. Auknar lífeyristekjur heimila skýrast að hluta af tímabundinni heimild til úttektar séreignalífeyrissparnaðar en auknar félagslegar tilfærslur skýrast af auknu atvinnuleysi sem og öðrum úrræðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins.

Launatekjur heimilanna hækka
Áætlað er að launatekjur heimila hafi aukist um 4,3% á fyrsta ársfjórðungi 2021 og skattar á laun hafi aukist um 4,5% á sama tímabili. Skýrist aukning í launatekjum heimila einkum af kjarasamningsbundnum launahækkunum. Launatekjur heimilanna námu 56% heildartekna á ársfjórðungnum borið saman við 58% á sama ársfjórðungi í fyrra. Tryggingagjöld atvinnurekenda og launafólks heimilisgeirans jukust um 3% á ársfjórðungnum borið saman við sama ársfjórðung síðasta árs. Eignatekjur heimila jukust um tæpt 1% á ársfjórðungnum samanborið við fyrsta ársfjórðung í fyrra sem skýrist einkum af auknum innlánum en áætlað er að vaxtatekjur heimila hafi aukist um 5% á tímabilinu. Áætlað er að vaxtagjöld heimila hafi aukist um 4% á fyrsta ársfjórðungi 2021 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra.

Aðferðafræði og gagnaöflun
Ráðstöfunartekjur heimilanna má skilgreina sem samtölu launatekna (D.1), eignatekna (D.4), lífeyristekna og félagslegra tilfærslna (D.62) ásamt öðrum tekjum sem innihalda framleiðsluvirði (P.1) og aðrar tekjutilfærslur (D.7), en að frádregnum eignagjöldum (D.4), sköttum á laun (D.5), tryggingagjaldi (D.61) og öðrum gjöldum, sem innihalda aðföng (P.2), laun og launatengd gjöld (D.1), skatta á framleiðslu og innflutning (D.2) og aðrar tekjutilfærslur (D.7).

Þær tölur sem hér eru birtar eru hluti af ársfjóðungslegu tekjuskiptingaruppgjöri þjóðhagsreikninga, gert samkvæmt þjóðhagsreikningastaðli Evrópusambandsins (ESA 2010). Niðurstöður byggja m.a. á framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga auk upplýsinga úr uppgjöri hins opinbera en lýsing á aðferðafræði árslegs tekjuskiptingaruppgjörs má finna í hefti Hagtíðinda frá árinu 2014. Ekki er lagt mat á óframtaldar tekjur heimila.

Við mat á bráðabirgðaniðurstöðum næstliðins árs er lagt mat á sex megin tekju- og gjaldaliði uppgjörsins:

  • laun og launtengd gjöld
  • skattar á laun
  • lífeyrir og félagslegar tilfærslur
  • tryggingagjöld
  • vaxtatekjur og vaxtagjöld
Helstu gagnalindir sem notaðar eru við mat fyrrgreindra meginstærða eru meðal annars staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, bráðabirgðauppgjör Fjársýslu ríkisins og fjárhagsupplýsingar sveitarfélaga auk gagna sem aflað er frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Seðlabanka Íslands.

Talanefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.