FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 02. OKTÓBER 2013

Ráðstöfunartekjur heimilageirans jukust árið 2012 um 4,9% frá fyrra ári. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 4,4% milli ára en kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann dróst saman um 0,8%.

Ráðstöfunartekjur heimilanna má skilgreina sem samtölu launatekna, eignatekna, tilfærslutekna og reiknaðs rekstrarafgangs einstaklingsfyrirtækja en að frádregnum eigna- og tilfærsluútgjöldum.

Heildartekjur heimilageirans jukust um 4,7% frá árinu 2011 til 2012. Þar af var 6,3% aukning á heildarlaunatekjum, 10,7% aukning á heildareignartekjum og 1,6% aukning á rekstrarafgangi einstaklingsfyrirtækja. Heildartilfærslutekjur drógust saman um 0,2% milli ára. Heildareigna- og tilfærsluútgjöld jukust um 4,4% milli ára, vegna 4,6% meiri tilfærsluútgjalda og 3,5% aukningar eignaútgjalda.


 

Samhliða birtingu talna fyrir árið 2012 hefur hluti af niðurstöðum ársins 2011 verið uppfærður. Helsta breytingin er að tölur um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum og um skatta á tekjur og eignir hafa verið lagfærðar í samræmi við endurskoðun á tölum um fjármál hins opinbera.

Þær tölur sem hér eru birtar eru að mestu byggðar á skattframtölum einstaklinga, en leitast er við að laga þær sem best að uppgjöri þjóðhagsreikninga þar sem við á. Má þar nefna að hagnaður af reiknaðri eigin leigu íbúðarhúsnæðis er hér tekjufærður þótt hann komi ekki fram í framtali. Þá hafa leigutekjur verið felldar út en þær eru að mestu leyti beinar tekjutilfærslur innan heimilageirans. Söluhagnaði er einnig sleppt í uppgjörinu. Ekki er lagt mat á óframtaldar tekjur heimila, nema að því marki sem þær koma fram á launamiðum einstaklinga sem ekki hafa skilað framtali.

Nánari lýsingu á einstökum þáttum ráðstöfunartekna heimilanna er að finna í Hagtíðindum frá 16. apríl 2007 sem finna má hér 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.