Samkvæmt niðurstöðum fjármálareikninga námu heildarfjáreignir innlendra efnahagsgeira íslenska hagkerfisins 21.301 milljarði króna í árslok 2011 en fjárskuldbindingar voru 30.544 milljarðar króna á sama tíma.

Fjáreignir heimila og félagasamtaka námu 3.080 milljörðum króna í árslok 2011 og voru fjárskuldbindingar þeirra 1.692 milljarðar króna á sama tíma. Hreinar fjáreignir heimila og félagasamtaka jukust um 7,5% á milli 2010 og 2011 og stóðu í 1.388 milljörðum króna í árslok 2011. Sem hlutfall af landsframleiðslu hafa þær aukist hægt og bítandi eftir hrun bankanna árið 2008 og voru 85,1% í lok árs 2011. Fjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja jukust um 7,4% á milli 2010 og 2011 á sama tíma og fjárskuldbindingar jukust um 4,5%. Hreinar fjáreignir fyrirtækja voru neikvæðar um 2.692 milljarða króna í lok árs 2011.

Hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja voru neikvæðar um 7.040 milljarða króna í árslok 2011 séu fjármálafyrirtæki í slitameðferð meðtalin, og hafði þó staða þeirra batnað um 857 milljarða króna á milli ára eða um 10,9%. Þá voru hreinar fjáreignir hins opinbera og undirgeira þess neikvæðar um 901 milljarð króna í árslok 2011 og hafði staðan versnað um 21% frá fyrra ári.

Fjáreignir erlendra aðila innan íslenska hagkerfisins námu 13.692 milljörðum króna í árslok 2011. Hreinar fjáreignir erlendra aðila á Íslandi voru í árslok 2011 9.343 milljarðar króna og höfðu rýrnað um 7,4% frá fyrra ári.

Fjármálareikningar: Fjáreignir og skuldir 2003-2011 - Hagtíðindi

Talnaefni