Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum fjármálareikninga er áætlað að heildarfjáreignir innlendra aðila hafi numið 26.253 milljörðum króna við árslok 2018, eða rúmum 933% af vergri landsframleiðslu (VLF). Heildarskuldbindingar námu 26.116 milljörðum króna, eða 928% af VLF. Fjáreign innlendra aðila var því jákvæð um 136 milljarða í lok árs 2018, en var jákvæð um 117 milljarða króna árið áður.

Heildarfjáreignir og fjárskuldbindingar innlendra efnahagsgeira, milljarðar króna

Fjáreignir heimilanna stóðu í tæplega 7.213 milljörðum kr. og fjárskuldir í 2.167 milljörðum kr. í lok árs 2018, samsvarandi 257% og 77% af VLF. Heildar fjáreignir jukust um tæplega 4,4%, á meðan skuldir hækkuðu um rúmlega 7,6% milli 2017 og 2018. Heildarfjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja námu um 4.081 milljörðum kr. og lækkuðu um 7,6% frá árinu 2017, en fjárskuldir stóðu í 7.736 milljörðum kr. og hækkuðu því um tæpt 1% á milli ára.

Fjáreignir fjármálafyrirtækja námu um 13.281 milljörðum kr. í lok árs 2018 og drógust saman um 0,6% á milli ára, en fjárskuldbindingar voru 14.215 milljarðar kr. og lækkuðu því um 1,7% á milli ára.

Í lok árs 2018 námu fjáreignir hins opinbera 1.586 milljörðum kr., eða sem nemur 56,4% af VLF og skuldir 1.990 milljörðum kr., eða 71% af VLF.

Fjármálaeignir erlendra aðila stóðu í 3.596 milljörðum kr. (128% af VLF) í árslok 2018 og skuldbindingar í 3.723 milljörðum kr. (132% af VLF). Fjáreignir hækkuðu um 9,1% og skuldbindingar um rúm 9,3% milli áranna 2017 og 2018.

Hagstofan, í samstarfi við Seðlabanka Íslands, vinnur nú að aðferðafræði fjármálareikninga. Að þessu sinni ná þessar breytingar einungis til ársins 2017 og því er ekki fullt samræmi milli ára. Áætlað er að endurskoðun fyrri ára ásamt lengingu tímaraða aftur til ársins 1997 verði lokið á næsta ári og birt í september 2020.

Talnaefni