FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 16. JÚNÍ 2022

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2021 nam 4,2% samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga, samanborið við 3,6% árið 2020. Á tímabilinu 2016 til 2019, fyrir kórónuveirufaraldurinn, nam hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu að jafnaði 8,1%.

Vinnustundir í ferðaþjónustu 6,5% heildarvinnustunda 2021
Mælt í heildarfjölda vinnustunda er áætlað að 6,5% vinnustunda hér á landi á árinu 2021 hafi tengst beint framleiðslu á vöru eða þjónustu til endanlegra nota fyrir ferðamenn. Til samanburðar var þetta hlutfall 5,6% árið 2020 en 10,4% að meðaltali á árunum 2016-2019. Áætlaður fjöldi vinnustunda við ferðaþjónustu á árinu 2021 eru 18,4 milljónir sem er aukning um 18% frá fyrra ári.

Áætlað er að tæplega 14 þúsund einstaklingar hafi starfað við ferðaþjónustu hér á landi á árinu 2021 sem er fjölgun um 8% frá árinu 2020. Aukning vinnustunda frá fyrra ári er því áætluð meiri en sem nemur fjölgun starfa á sama tímabili. Í þessu samhengi ber að nefna aðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs og áhrif þeirra á fjölda starfa í ferðaþjónustu á tímabilinu. Til að mynda gerði hlutabótaleiðin fyrirtækjum kleift að lækka starfshlutfall hjá launafólki tímabundið á móti greiðslu atvinnuleysisbóta. Af þeim sem fengu greiddar hlutabætur á árinu 2020 störfuðu um 37% í einkennandi greinum ferðaþjónustu.

Neysla ferðamanna hérlendis jókst um 49%
Heildarneysla ferðamanna, innlendra og erlendra, hér á landi nam 349 milljörðum króna árið 2021 og jókst um 49% borið saman við árið 2020. Heildarneysla ferðamanna er þó enn töluvert lægri en árið 2019 þegar hún nam 556 milljörðum króna. Hafa ber í huga að upphæðir eru á verðlagi hvers árs.

Útgjöld innlendra ferðamanna námu 44% af heildarútgjöldum ferðamanna
Útgjöld innlendra ferðamanna á ferð um Ísland námu tæplega 149 milljörðum króna árið 2021, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum, og jukust um 24% samanborið við árið 2020. Gistiþjónusta vegur þyngst í útgjöldum ferðamanna á árinu 2021 en gistinóttum innlendra ferðamanna fjölgaði um 32% borið saman við árið 2020. Útgjöld innlendra ferðamanna námu 44% af heildarútgjöldum ferðamanna árið 2021, samanborið við 55% árið 2020 og 27% árið 2019.

Útgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu tæplega 189 milljörðum króna árið 2021 og jukust um 92% borið saman við árið 2020 en voru þó ríflega helmingi lægri en útgjöld þeirra hér á landi árið 2019. Útgjöld erlendra ferðamanna námu 56% af heildarútgjöldum ferðamanna árið 2021. Líkt og í tilfelli innlendra ferðamanna vegur gistiþjónusta þyngst í útgjöldum erlendra ferðamanna en gistinóttum þeirra fjölgaði um 68% frá fyrra ári.

Um gögnin
Ferðaþjónustureikningar (e. tourism satellite accounts) eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar hérlendis. Ferðaþjónustureikningar taka til útgjalda innlendra sem og erlendra ferðamanna á Íslandi.

Áður birtar niðurstöður ferðaþjónustureikninga hafa verið endurskoðaðar samhliða birtingu ferðaþjónustureikninga fyrir árið 2021. Þar sem ferðaþjónustureikningar byggja á niðurstöðum ráðstöfunaruppgjörs og framleiðsluuppgjörs er rétt að árétta að endurskoðanir sem gerðar eru í þeim uppgjörum ná einnig til ferðaþjónustureikninga.

Með útgáfu ferðaþjónustureikninga fyrir 2021 eru gefin út hagtíðindi með ítarlegri umfjöllun um þróun ferðaþjónustu og niðurstöður ferðaþjónustureikninga árin 2009 til 2021.

Talnaefni

Hagtíðindi um ferðaþjónustureikninga 2009-2021

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.