FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 09. SEPTEMBER 2010

Vegna umræðna um aðferðir og niðurstöður þjóðhagsreikninga á 2. ársfjórðungi 2010 vill Hagstofa Íslands taka eftirfarandi fram.

Samantekt
Árstíðaleiðréttingar breyta ekki niðurstöðum um hagvöxt einstakra ára, heldur eingöngu hvernig hann dreifist niður á ársfjórðunga innan ársins.

Við mat á ársfjórðungslegum niðurstöðum er mikilvægt, að mati Hagstofunnar, að bæði sé litið til óleiðréttra og árstíðaleiðréttra niðurstaðna, einkanlega í ljósi þess að leiðréttingar eiga sér skamman þróunarferil hér á landi og því hefur Hagstofan til skamms tíma ekki síður lagt áherslu á breytingar frá sama fjórðungi fyrra árs með og án árstíðaleiðréttinga.

Þá er þess að geta að leiðréttar niðurstöður, sem birtar voru fyrir mars 2009, eru ekki sambærilegar við niðurstöður birtar eftir það vegna breytinga á aðferðum við útreikninga. Þær breytingar voru kynntar á sínum tíma.

Beitt er sömu aðferðum á Íslandi við árstíðaleiðréttingar og í flestum öðrum Evrópuríkjum.

Í kjölfar efnahagskreppunnar hafa árstíðaleiðréttar tölur sýnt afar sveiflukenndar niðurstöður hjá flestum smærri ríkjum í Evrópu.

Hagstofa Íslands hefur ítrekað gert fyrirvara við árstíðaleiðréttar tölur í Hagtíðindum, þeir sem þekkja til ættu að gera sér grein fyrir takmörkunum árstíðaleiðréttinga.

Áhrif árstíðaleiðréttinga
Niðurstöður um landsframleiðslu eru birtar ársfjórðungslega. Þannig eru fyrstu niðurstöður á ári hverju birtar í júní, niðurstöður fyrir annan ársfjórðung í september, fyrir þriðja í desember og fyrir fjórða ársfjórðung í mars árið á eftir og þá eru jafnframt birtar fyrstu niðurstöður fyrir árið í heild. Niðurstöður fyrir hvert ár eru eftir það endurskoðaðar í september og mars. Þannig breytast niðurstöður fyrir síðastliðin 2-3 ár eftir því sem heimildir verða ítarlegri.

Þegar niðurstöður hvers ársfjórðungs eru birtar eru jafnframt gerðar árstíðaleiðréttingar þar sem reynt er að leiðrétta vegna áhrifa af árstíðabundnum þáttum í efnahagsstarfseminni. Þessar leiðréttingar eiga sér skamman þróunarferil hér á landi og við efnahagshrunið og þá kreppu sem fylgdi í kjölfarið komu auk þess fram mikil vandamál við árstíðaleiðréttingu í mörgum ríkjum þar sem mælingar á ársfjórðunglegum hagvexti urðu mjög sveiflukenndar og jafnvel ótrúverðugar.

Þrennt getur haft áhrif á árstíðaleiðréttar tölur: Aðferðin sem notuð er við árstíðaleiðréttinguna, breytingar á eldri tölum og nýjar mælingar (nýjasti ársfjórðungurinn), en nýjasti ársfjórðungurinn getur haft áhrif á árstíðaleiðréttingu fyrri ársfjórðunga.

Þær tölur sem mest hefur verið fjallað um að undanförnu er mæling á hagvexti á milli samliggjandi ársfjórðunga sem byggjast á árstíðaleiðréttum tölum. Meiriháttar breytingar á samsetningu efnahagslífsins, t.d. vegna efnahagshrunsins, og óreglubundnir liðir geta haft mikil áhrif á árstíðaleiðréttingu. Því smærra sem hagkerfið er, því meira vægi hafa ýmsir óreglulegir liðir, svo sem innflutningur og útflutningur á flugvélum, en á undanförnum fimm árum hefur ársfjórðungslegur innflutningur á flugvélum sveiflast frá 0% til 9% af innflutningi í viðkomandi ársfjórðungi. Slíkir óreglulegir liðir gera það enn erfiðara að greina árstíðasveiflu í gögnunum og hagvöxturinn milli einstakra ársfjórðunga verður einnig óstöðugri.

Auk þessa má nefna að gerð ársfjórðungslegra þjóðhagsreikninga á Íslandi hófst ekki fyrr en 2001 og talnaefnið nær einungis aftur til 1997 á meðan öll helstu Evrópuríki eru með ársfjórðungslega þjóðhagsreikninga sem ná hið minnsta aftur til ársins 1980. Þetta þýðir að Hagstofan byggir sína árstíðaleiðréttingu á 54 mælingum á meðan önnur ríki byggja á meira en 122 mælingum. Hver ný mæling sem bætist við hér á landi hefur því meiri áhrif á viðkomandi tímaröð en annars staðar.

Ef bornar eru saman niðurstöður fyrir ársfjórðunga yfir lengra tímabil verður einnig að hafa það í huga að í mars árið 2009 var breytt um aðferð við ársfjórðungsleiðréttinguna og hún færð til samræmis við það sem Eurostat mælir með (óbein aðferð, þar sem hver undirliður er árstíðaleiðréttur sérstaklega og þeir svo tengdir saman í samtölur, en fram að þeim tíma voru þeir árstíðaleiðréttir beint). Þannig eru niðurstöður sem birtust fyrir þann tímapunkt ekki samanburðarhæfar við þær niðurstöður sem fengist hafa síðar.

Hagstofan birtir óleiðréttar ársfjórðungslegar niðurstöður með tvennum hætti. Annars vegar er niðurstaða fyrir síðasta ársfjórðung borin saman við sama fjórðung árið áður og hins vegar eru samanlagðar niðurstöður fyrir það sem liðið er af árinu miðað við sama tíma næstliðins árs. Auk þess eru árstíðaleiðréttar niðurstöður fyrir hvern ársfjórðung sýndar. Til þess að fá heildarmynd þarf að líta á hvort tveggja.

Hagstofan hefur einnig gert ítarlega fyrirvara við niðurstöður af árstíðaleiðréttingunum við birtingu bæði í mars og júní 2010. Í Hagtíðindum 5. mars 2010 var eftirfarandi athugasemd gerð: „Árstíðaleiðréttingin byggist á að greina reglubundnar sveiflur og leiðrétta tölur með tilliti til þeirra. Umfangsmiklar og óvæntar breytingar, til dæmis efnahagshrun, geta skekkt árstíðaleiðréttar niðurstöður. Það er skoðun Hagstofunnar að þær aðferðir sem hún beitir við árstíðaleiðréttingu ofmeti hagvöxtinn milli 3. og 4. ársfjórðungs 2009 og þar með vanmeti hann á milli annarra ársfjórðunga á árinu. Þetta ofmat hefur hins vegar ekki áhrif á mat á árlegum hagvexti milli 2008 og 2009. Hagstofan mun vinna að endurbótum á þeim aðferðum sem hún beitir við árstíðaleiðréttingu.“

Auk þessa var gerður eftirfarandi fyrirvari við birtingu á niðurstöðum í júní 2010 sem birtist í Hagtíðindum 8. júní 2010. „Hagstofan hefur endurskoðað þá aðferð sem beitt er við árstíðaleiðréttingu vöruútflutnings. Þessi endurskoðun leiðir til breytinga á áður birtum tölum um ársfjórðungslega þróun landsframleiðslunnar. Hagvöxtur á milli 3. og 4. ársfjórðungs 2009 er nú talinn hafa numið 0,7% í stað 3,3%. Endurskoðaðar tölur sýna einnig samfelldan samdrátt frá og með 4. ársfjórðungi 2008 til og með 3. ársfjórðungi 2009. Hagstofan mun áfram vinna að endurbótum á þeim aðferðum sem hún beitir við árstíðaleiðréttingu.“

Það er því ljóst að Hagstofan hefur sett fyrirvara við þessar ársfjórðungslegu niðurstöður 2009 og 2010 sem sýndu nokkurn hagvöxt milli ársfjórðunga. Ítrekað skal að nauðsynlegt er að bæði sé litið til óleiðréttrar og árstíðaleiðréttrar niðurstaðna áður en ályktanir eru dregnar.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.