FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 30. MARS 2005

Við úrvinnslu fréttar um verðmæti sjávarafla janúar-desember urðu þau mistök að uppsjávartegundir víxluðust í yfirlitstöflu sem fylgdi fréttinni og voru því gefnar upp rangar tölur yfir aflaverðmæti uppsjávartegunda. Hér á eftir birtist leiðrétt frétt ásamt yfirlitstöflu.
       Á árinu 2004  nam aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum tæpum 68 milljörðum króna en aflaverðmæti 2003 var 67,3 milljarðar króna og er aukningin á milli ára því um rúmar 679 milljónir króna eða 1%. Verðmæti botnfiskaflans á árinu 2004 var 47,4 milljarðar króna og er það aukning um tæplega 2,1 milljarð króna frá fyrra ári en þá nam verðmæti botnfiskaflans 45,3 milljörðum króna. Verðmæti þorsks var tæpir 28 milljarðar króna en var 26 milljarðar árið 2003. Verðmæti ýsuafla var 7,7 milljarðar króna og er það aukning um tæpan 1,8 milljarð króna eða 30,6%. Verðmæti karfaafla var 3,7 milljarðar króna og er það samdráttur upp á 986 milljónir eða 21% frá fyrra ári.
       Verðmæti uppsjávarafla var 11,9 milljarðar króna árið 2004 samanborið við12,2 milljarða árið á undan og nemur samdrátturinn 2,2%. Verðmæti kolmunnaaflans dróst saman á milli ára um 622 milljónir króna eða 18,1%. Hins vegar jókst verðmæti síldaraflans milli ára um 883 milljónir króna en verðmæti loðnuaflans dróst saman um 844 milljónir. Aflaverðmæti skel- og krabbadýra var 2,5 milljarðar króna árið 2004 en nam 3,7 milljörðum 2003 og nemur samdrátturinn rúmum 1,2 milljörðum króna. Hér munar mestu um samdrátt í verðmæti rækjuaflans um 1,1 milljarð króna milli ára.
       Verðmæti afla í beinni sölu útgerða til vinnslustöðva á árinu 2004 var 28,7 milljarðar króna samanborið við 30,4 milljarða árið 2003 og er það 5,4% samdráttur. Verðmæti afla sem seldur er á fiskmörkuðum til vinnslu innanlands var 9,2 milljarðar árið 2004 og dróst saman um 2,4% frá fyrra ári. Aflaverðmæti sjófrysts afla til endurvinnslu innanlands dróst einnig saman milli ára, var 746 milljónir króna árið 2003 en nam 390 milljónum árið 2004 og er það samdráttur upp á 47,8%. Verðmæti sjófrysts afla var 21,5 milljarðar króna árið 2004 en var 20,6 milljarðar árið áður. Í gámum var fluttur út ferskur fiskur fyrir 6,4 milljarða króna árið 2004 samanborið við 4,1 milljarð 2003 og nemur aukningin 54,5%. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði en fluttur út í gámum jókst einnig á milli ára, úr 649 milljónum 2003 í 1,1 milljarð 2004 eða um 66,9%. Verðmæti afla sem landað er í bræðslu erlendis dróst saman um 81,8%, var 542 milljónir króna árið 2003 en 99 milljónir á árinu 2004.
       Á Suðurnesjum var unnið úr afla að verðmæti 11,4 milljarðar króna og á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi eystra var unnið úr afla að verðmæti 10,8 milljörðum á hvoru svæði fyrir sig. Unnið var úr lægsta aflaverðmætinu á Vestfjörðum og á Vesturlandi eða 4,3 milljörðum króna á hvoru landssvæði fyrir sig. Samdráttur var hlutfallslega mestur milli ára á Vesturlandi eða 16,4% en í verðmætum talið var samdrátturinn mestur á Austurlandi eða um 926 milljónir króna. Mest hefur aukning verið í verðmæti þess afla sem fluttur er út og unninn erlendis og nam sú aukning 1,6 milljarði króna eða 31% á milli ára.
      Upplýsingar um afla og aflaverðmæti¹ janúar-desember 2004 er að finna í talnaefni.

¹ Þessar upplýsingar byggja á vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem Fiskistofa safnar frá fiskkaupendum. Fyrir árið 2004 er stuðst við bráðabirgðatölur en endanlegar tölur liggja að baki talna fyrir árið 2003. Athuganir benda til þess að endanlegar tölur séu að hámarki 1-2% hærri en bráðabirgðatölur þegar á heildina er litið en fyrir örfáar fisktegundir getur munurinn þó orðið meiri.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.