Alls voru 1.690 fiskiskip á skrá hjá Siglingastofnun í lok árs 2012 og hafði þeim fjölgað um 35 frá árinu áður. Fjöldi vélskipa var 778 og samanlögð stærð þeirra 89.275 brúttótonn. Vélskipum fjölgaði um 14 á milli ára en stærð flotans jókst um 6.498 brúttótonn. Togarar voru alls 56 og fækkaði um tvo frá árinu á undan. Heildarstærð togaraflotans var 72.701 brúttótonn og hafði minnkað um 436 brúttótonn frá árinu 2011. Opnir fiskibátar voru 856 talsins og 4.110 brúttótonn að stærð. Opnum fiskibátum fjölgaði um 23 milli ára og heildarstærð þeirra jókst um 122 brúttótonn.

Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2012, eða 399 skip, sem er um 23,6% fiskiskipastólsins. Næst flest, alls 324, voru með heimahöfn skráða á Vesturlandi, eða rúm 19%. Fæst skip voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi, 75 alls, en það samsvarar 4,4% af heildarfjölda fiskiskipa. Opnir bátar voru flestir á Vestfjörðum, eða 227, og á Vesturlandi voru þeir 180. Fæstir opnir bátar voru með heimahöfn á Suðurlandi, alls 17. Vélskip voru einnig flest á Vestfjörðum, 166 talsins, en fæst á Norðurlandi vestra, 56 skip. Flestir togarar voru með heimahöfn skráða á höfuðborgarsvæðinu, alls 12, en 11 togarar voru skráðir með heimahöfn á Norðurlandi eystra. Fæstir togarar voru skráðir á Vesturlandi, alls 4.

Íslenski fiskiskipastóllinn var rúmlega 8 mánuðum eldri að meðaltali í árslok 2012 heldur en í árslok 2011, en meðalaldur var um 24 ár og fimm mánuðir. Meðalaldur vélskipa var tæp 23 ár, togaraflotans rúm 27 ár og opinna fiskibáta tæp 26 ár. Meðalsmíðaár fiskiskipaflotans var árið 1988 og þilfarsskipaflotans (vélskipa og togara) árið 1989.

Talnaefni