Afli á föstu verði
Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum septembermánuði, metinn á föstu verði, var 31,1% meiri en í september 2012. Það sem af er árinu veiddist 3,2% meiri afli en á sama tímabili árið 2012, sé aflinn metinn á föstu verði.

Afli í tonnum
Aflinn nam alls 116.240 tonnum í september 2013 samanborið við 105.928 tonn í september 2012 sem er 10% aukning á magni milli ára.

Botnfiskafli jókst um rúm 11.500 tonn frá september 2012 og nam rúmum 46.800 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 20.700 tonn, sem er aukning um 2.300 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam rúmum 4.000 tonnum sem er 849 tonnum meiri afli en í september 2012. Karfaaflinn nam rúmum 8.000 tonnum í september 2013 sem er um 3.100 tonnum meiri afli en í fyrra. Rúm 10.700 tonn veiddust af ufsa sem er um 5.800 tonna aukning frá september 2012.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 65.100 tonnum, sem er rúmlega 1.900 tonnum minni afli en í september 2012. Samdráttinn má rekja til um 12.100 tonna minni síldarafla, sem nam rúmum 39.400 tonnum í september 2013. Hins vegar var um 9.200 tonna aukning í makrílafla, sem nam 22.900 tonnum í september 2013. Veiði á kolmunna jókst einnig milli ára en aflinn nam tæpum 2.800 tonnum í september 2013, sem er aukning um 885 tonn. Einnig voru tæp 1.600 tonn veidd af túnfiski í mánuðinum, en 176 tonn veiddust af honum í september 2012.

Flatfiskaflinn var rúm 3.300 tonn í september 2013 og jókst um 804 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam 883 tonnum samanborið við 972 tonna afla í september 2012.

Munur á afla á föstu verði og í tonnum
Afli á föstu verði er reiknaður út til þess að finna breytingu á verðmæti heildaraflans að gefinni þeirri forsendu að verðhlutföll milli einstakra fisktegunda séu þau sömu og á ákveðnu viðmiðunartímabili sem hér er fiskveiðiárið 2011-2012. Hér er því um að ræða hliðstæðu við umreikning á afla yfir í þorskígildi. Aflinn í tonnum sýnir hins vegar magn aflans án tillits til þess að fisktegundir eru misjafnlega verðmætar.

Talnaefni