FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 16. NÓVEMBER 2005

Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum októbermánuði var tæplega 86.100 tonn og er það 50.100 tonna minni afli en í októbermánuði 2004 en þá veiddust tæp 136.200 tonn. Milli októbermánaða 2004 og 2005 dróst verðmæti fiskaflans saman um 13,9%, á föstu verði ársins 2003. Það sem af er árinu 2005 hefur verðmæti fiskaflans, á föstu verði ársins 2003, dregist saman um 2,1% miðað við 2004.

Botnfiskafli var 38.100 tonn samanborið við rúm 43.600 tonn í október 2004 og hefur því dregist saman um rúmlega 5.500 tonn. Af þorski bárust á land tæplega 17.100 tonn og er það tæpum 2.400 tonnum minna en í fyrra. Ýsuaflinn nam ríflega 9.200 tonnum, tæpum 300 tonnum meira en 2004. Ufsaafli dróst verulega saman milli októbermánaða 2005 og 2004, nam rúmum 5.300 tonnum í ár sem er ríflega 3.100 tonnum minna en í fyrra.

Flatfiskafli var rúm 1.400 tonn sem er samdráttur um ríflega 600 tonn frá 2004, þar af veiddust tæp 400 tonn af skarkola, tæp 400 tonn fengust einnig af grálúðu en á sama tíma í fyrra bárust á land rúmlega 600 tonn af grálúðu.

Síldarafli var tæp 43.800 tonn og jókst um 6.300 tonn frá fyrra ári. Mikill samdráttur varð hins vegar í kolmunnaaflanum, en í ár bárust 1.700 tonn á land samanborið við tæp 51.600 tonn í fyrra.

Skel- og krabbadýraafli var rúm 800 tonn og dróst saman um tæp 600 tonn frá 2004. Sem fyrr var samdrátturinn mestur í rækjuafla en rækjuaflinn nam rúmum 300 tonnum í ár samanborið við ríflega 600 tonn árið 2004. Að auki dróst kúfiskaflinn saman, var tæp 400 tonn í ár en vel yfir 600 tonn í fyrra.
 
Heildarafli íslenskra skipa það sem af er árinu 2005 nam 1.497.400 tonnum og er það ríflega 7.800 tonna minni afli en á sama tímabili í fyrra. Botnfiskafli var 410.200 tonn og var það álíka mikill afli og árið áður. Flatfiskafli dróst saman, nam rúmum 24.000 tonnum í ár miðað við rúm 27.100 tonn árið 2004. Uppsjávarafli jókst hins vegar um tæp 12.900 tonn en skel- og krabbadýraafli var tæpum 16.900 tonnum minni í ár en í fyrra.








¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.