FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 16. JÚNÍ 2005

Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum maímánuði var 135.549 tonn sem er 19.800 tonnum minna en í maímánuði 2004. Milli maímánaða 2004 og 2005 jókst hins vegar verðmæti fiskaflans, á föstu verðlagi ársins 2003, um 1,4% en það sem af er árinu hefur það aukist um 2,3% frá fyrra ári.

Botnfiskafli var tæp 43.200 tonn samanborið við rúm 37.200 tonn í maí 2004 og jókst því um tæplega 6.000 tonn milli ára. Þorskafli var rúm 16.800 tonn en var rúmlega 17.800 tonn í maí 2004. Ýsuaflinn var tæp 8.700 tonn en í maí 2004 bárust tæplega 5.700 tonn á land og hefur því ýsuaflinn aukist um 3.000 tonn. Af ufsa veiddust tæp 4.200 tonn en í fyrra veiddust tæplega 3.700 tonn og nemur aukningin því rúmum 500 tonnum. Karfaafli var 4.900 tonn sem er tæpum 1.500 tonnum meira en í maímánuði 2004.

Flatfiskafli var tæplega 3.600 tonn og dróst saman um rúm 600 tonn milli ára. Mestur var grálúðuaflinn, rúm 1.300 tonn en hafði þó dregist saman um tæpan helming frá maí í fyrra. Skarkolaaflinn hafði hins vegar aukist um tæp 500 tonn og nam rúmum 1.000 tonnum í maí 2005.

Tæp 75.700 tonn bárust á land af kolmunna sem er 20.500 tonnum minna en í maí í fyrra. Einnig barst minna á land af síld, tæp 11.200 tonn miðað við rúm 14.800 tonn í maí 2004. 

Skel- og krabbadýraafli var tæp 2.000 tonn samanborið við 2.900 tonn í maí 2004. Rækjuaflinn var rúm 1.000 tonn sem er um þriðjungs samdráttur frá fyrra ári er rúmlega 1.500 tonn bárust á land af rækju í maímánuði 2004. Humaraflinn nam tæpum 900 tonnum miðað við rúm 500 tonn í maí 2004. Enginn kúfiskur hefur borist á land en í fyrra nam aflinn rúmum 800 tonnum.

Heildarafli íslenskra skipa á fyrstu fimm mánuðum ársins var rétt rúm milljón tonn og er það ríflega 126.300 tonna meiri afli en á árinu 2004. Botnfiskafli var tæp 239.400 tonn og hafði aukist um ríflega 20.700 tonn miðað við sama tímabil í fyrra. Þorskaflinn var rúm 108.500 tonn en var tæp 112.900 tonn 2004 og dróst saman um tæp 4.400 tonn. Ýsuaflinn var tæp 48.800 tonn og hafði aukist um tæplega 1.100 tonn. Ufsaaflinn var rúmlega 25.200 tonn miðað við tæp 21.100 tonn í fyrra. Af karfa höfðu veiðst 33.200 tonn sem er aukning um 7.900 tonn frá 2004. Flatfiskaflinn var tæp 11.500 tonn sem þýðir samdrátt milli ára um tæplega 1.600 tonn, þar af var grálúðuaflinn 4.700 tonn og skarkolaaflinn 2.800 tonn. 

Af kolmunna hafa borist á land á tímabilinu tæp 140.200 tonn sem er rúmlega 10.600 tonna aukning frá fyrra ári. Síldaraflinn nam tæpum 13.000 tonnum miðað við 24.200 tonn árið 2004. Skel- og krabbadýrafli var í lok maímánaðar rúm 4.200 tonn sem er samdráttur um tæp 7.100 tonn frá fyrra ári. Þar munar mestu um tæplega 4.900 tonna samdrátt í rækjuafla en rækjuaflinn nam rúmum 2.900 tonnum fyrstu fimm mánuði ársins 2005. Enginn kúfiskur hefur borist á land í ár en á sama tíma í fyrra nam kúfiskaflinn tæpum 2.800 tonnum. Hins vegar hefur aukning orðið í humarafla, var rúm 700 tonn í fyrra en nemur í ár 1.200 tonnum.


¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.