FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 16. ÁGÚST 2004

Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum júlímánuði var liðlega 170.100 tonn sem er rúmlega 65.000 tonnum minni afli en í júlímánuði 2003 en þá veiddust 235.400 tonn. Milli júlímánaða 2003 og 2004 dróst verðmæti fiskaflans, á föstu verði ársins 2002, saman um 7,6%. Það sem af er árinu 2004 hefur verðmæti fiskaflans, á föstu verði ársins 2002, dregist saman um 0,9% miðað við árið 2003.
       Botnfiskafli var 37.300 tonn samanborið við 33.600 tonn í júlímánuði 2003 og jókst því um 3.700 tonn á milli ára. Þorskafli var 11.400 tonn en 11.600 tonn bárust á land í júlí 2003 og er það samdráttur um ein 200 tonn. Af ýsu veiddust 3.800 tonn en í fyrra veiddust 2.900 tonn og nemur aukning ýsuaflans því 900 tonnum. Úthafskarfaafli var tæplega 13.000 tonn í ár en 5.600 tonn í fyrra og er það 7.400 tonna aukning milli júlímánaða eftir verulegan samdrátt í júnímánuði.
       Flatfiskafli var 2.800 tonn og dróst saman um 800 tonn frá júlímánuði 2003. Grálúðuaflinn nam 1.850 tonnum eða 1.000 tonnum minna en í sama mánuði í fyrra. 
       Afli uppsjávartegunda nam 124.000 tonnum, þar af kolmunnaafli tæpum 79.000 tonnum, síldarafli 17.000 tonnum og loðnuafli 28.000 tonnum. Í samanburði við afla sama mánaðar 2003 er samdráttur í öllum uppsjávartegundum, mestur í loðnu 43.000 tonn. Kolmunnaafli dróst saman um 21.000 tonn og síldarafli um 3.600 tonn.
       Skel- og krabbadýraafli var 5.500 tonn samanborið við 6.600 tonna afla í júlí 2003. Aflasamdráttur í rækju nam tæpum 1.000 tonnum en afli annarra skel- og krabbadýra breyttist lítið.
       Heildarafli íslenskra skipa það sem af er árinu 2004 nemur 1.225.000 tonnum og er það 150.000 tonna minni afli en á sama tímabili ársins 2003. Botnfiskafli var rúmlega 292.000 tonn sem er rúmum 8.000 tonnum meiri afli en í fyrra. Flatfiskafli er 4.000 tonnum minni en í fyrra, uppsjávarafli er 147.000 tonnum minni en þar vegur 61.000 tonna aukning kolmunna á móti 164.000 tonna samdrætti loðnuafla og tæplega 44.000 tonna samdrætti síldaarafla. Þá hefur skel- og krabbadýraafli dregist saman um 8.400 tonn en samdráttur er í öllum helstu tegundum skel- og krabbadýra.

¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.