FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 16. FEBRÚAR 2012


Afli á föstu verði
Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum janúarmánuði, metinn á föstu verði, var 41,9% meiri en í janúar 2011.

Afli í tonnum
Aflinn nam alls 193.811 tonnum í janúar 2012 samanborið við 119.669 tonn í janúar 2011.

Botnfiskafli jókst um rúm 5.300 tonn frá janúar 2011 og nam rúmum 30.600 tonnum. Þar af var þorskaflinn rúm 16.600 tonn, sem er aukning um tæp 3.300 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam rúmum 5.800 tonnum sem er um 2.100 tonnum meiri afli en í janúar 2011. Karfaaflinn jókst um 260 tonn samanborið við janúar 2011 og nam tæpum 3.100 tonnum. Um 2.600 tonn veiddust af ufsa sem er um 400 tonnum meiri afli en í janúar 2011.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 162.000 tonnum, sem er tæplega 68.400 tonnum meiri afli en í janúar 2011. Aukningu í uppsjávarafla má rekja til tæplega 161.000 tonna loðnuafla í janúar samanborið við 82.500 tonna afla í janúar 2011. Kolmunnaaflinn nam 903 tonnum en var 15 tonn árið áður. Nær enginn annar uppsjávarafli var veiddur í janúar 2012 samanborið við 10.600 tonn af síld og gulldeplu árið áður.

Flatfiskaflinn var rúm 1.200 tonn í janúar 2012 og jókst um tæp 300 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam 401 tonni samanborið við um 212 tonna afla í janúar 2011.

Munur á afla á föstu verði og í tonnum
Afli á föstu verði er reiknaður út til þess að finna breytingu á verðmæti heildaraflans að gefinni þeirri forsendu að verðhlutföll milli einstakra fisktegunda séu þau sömu og á ákveðnu viðmiðunarári sem hér er árið 2010. Hér er því um að ræða hliðstæðu við umreikning á afla yfir í þorskígildi. Aflinn í tonnum sýnir hins vegar magn aflans án tillits til þess að fisktegundir eru misjafnlega verðmætar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.