FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 16. FEBRÚAR 2005

Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum janúarmánuði var 234.200 tonn og er það 127.700 tonnum meiri afli en í janúarmánuði 2004 en þá var aflinn 106.500 tonn. Aflaverðmæti janúarmánaðar, mælt á föstu verði ársins 2003, jókst um 24,2% frá janúar 2004. Munar hér mest um þreföldun á loðnuafla frá janúarmánuði 2004.
     Botnfiskafli var 32.500 tonn samanborið við 30.400 tonn í janúarmánuði 2004 og nemur aukningin 2.000 tonnum á milli ára. Þorskafli var 16.600 tonn en 16.000 tonn bárust á land í janúar 2004. Af ýsu veiddust 7.600 tonn en í fyrra veiddust 5.900 tonn og nemur aukning ýsuaflans því 1.700 tonnum. Ufsaafli var 4.200 tonn í janúarmánuði í ár en var 3.100 tonn í fyrra og er það 1.100 tonna aukning á milli ára.
     Flatfiskafli var tæp 900 tonn og minnkaði um tæplega 500 tonn frá janúarmánuði 2004. Af grálúðu veiddust um 200 tonn en í janúarmánuði árið 2004 var grálúðuaflinn rúm 300 tonn. Skrápflúruaflinn var tæp 100 tonn og nemur samdrátturinn rúmum 200 tonnum en yfir 300 tonn bárust á land af skrápflúru í janúarmánuði 2004. Af skarkola veiddust rúm 300 tonn.
     Sú mikla aukning í heildarafla sem varð á milli janúarmánaða 2004 og 2005 sem fyrr segir er ekki síst vegna aukningar loðnuafla. Afli uppsjávartegunda nam tæpum 200.800 tonnum og var loðnuaflinn 200.400 tonn en síldarafli tæp 400 tonn. Í samanburði við afla janúarmánaðar 2004 þá jókst loðnuaflinn um 135.900 tonn en síldarafli dróst saman um 9.000 tonn.
     Skel- og krabbadýraafli var tæp 80 tonn samanborið við 900 tonna afla í janúar 2004. Þar munar mest um kúfisk en engum kúfiski var landað í janúar 2005 samanborið við rúm 500 tonn 2004. Einnig dróst rækjuafli saman um rúm 300 tonn, var 40 tonn í janúarmánuði í ár en tæp 400 tonn í janúar 2004.

 

 

¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.