FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 15. SEPTEMBER 2005

Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum ágústmánuði var tæp 83.000 tonn sem er rúmlega 5.700 tonna meiri afli en í ágústmánuði 2004 en þá veiddust ríflega 77.200 tonn. Milli ágústmánaða 2004 og 2005 dróst verðmæti fiskaflans saman, á föstu verði ársins 2003, um 6,2%. Það sem af er árinu 2005 hefur verðmæti fiskaflans, á föstu verði ársins 2003, dregist saman um 1,7% miðað við árið 2004.

Botnfiskafli var 36.300 tonn samanborið við tæp 38.000 tonn í ágústmánuði 2004 og dróst því saman um tæp 1.700 tonn. Þorskafli var tæplega 11.900 tonn en liðlega tæp 13.600 tonn bárust á land í ágúst 2004 og er það samdráttur um 1.700 tonn. Af ýsu veiddust tæp 6.300 tonn en í fyrra nam aflinn 5.300 tonnum og er það aukning um tæp 1.000 tonn milli ára. Úthafskarfaafli var yfir 8.000 tonn í fyrra en í ágústmánuði í ár nam hann tæpum 3.000 tonnum og hefur því dregist saman um tæp 5.100 tonn.

Flatfiskafli var rúm 1.600 tonn og dróst saman um ríflega 800 tonn frá ágústmánuði 2004. Grálúðuaflinn nam ríflega 700 tonnum sem er tæpum 800 tonnum minni afli en í sama mánuði í fyrra.

Afli uppsjávartegunda nam 42.900 tonnum, þar af nam síldarafli rúmum 38.600 tonnum og kolmunni 4.000 tonnum. Í samanburði við afla ágústmánaðar 2004 er aukning í síldarafla um rúm 18.700 tonn en kolmunnaaflinn dróst saman um ríflega 8.700 tonn.

Skel- og krabbadýraafli var rúm 2.000 tonn samanborið við tæplega 4.200 tonna afla í ágúst 2004. Aflasamdráttur í rækju nam tæplega 1.700 tonnum milli ára.

Heildarafli íslenskra skipa það sem af er árinu 2005 nemur 1.337.900 tonnum og er það tæplega 32.800 tonna meiri afli en á sama tímabili ársins 2004. Botnfiskafli var tæp 337.700 tonn sem er um 7.100 tonna aukning frá fyrra ári. Þorskafli er hins vegar 10.600 tonnum minni en í fyrra. Flatfiskafli er rúmum 2.500 tonnum minni en uppsjávarafli jókst um tæp 43.900 tonn milli ára. Nemur aukningin í síldarafla 23.000 tonnum og aukning í loðnuafla var 77.700 tonn en kolmunnaafli dróst saman um tæp 57.100 tonn. Þá hefur skel- og krabbadýraafli dregist saman um rúm 15.600 tonn.

¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.