Afli á föstu verði
Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum júnímánuði, metinn á föstu verði, var 13,6% minni en í júní 2012. Það sem af er árinu veiddist jafn mikið og á sama tímabili árið 2012, sé aflinn metinn á föstu verði.

Afli í tonnum
Aflinn nam alls 39.812 tonnum í júní 2013 samanborið við 52.290 tonn í júní 2012.

Botnfiskafli dróst saman um rúm 1.300 tonn frá júní 2012 og nam tæpum 26.400 tonnum. Þar af var þorskaflinn rúm 15.100 tonn, sem er aukning um tæp 2.900 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam tæpum 2.100 tonnum sem er 174 tonnum meiri afli en í júní 2012. Karfaaflinn nam tæpum 2.500 tonnum í júní 2013 sem er 244 tonnum minni afli en í fyrra. Rúm 2.800 tonn veiddust af ufsa sem er rúmlega 1.100 tonna samdráttur frá júní 2012.

Afli uppsjávartegunda nam rúmum 9.100 tonnum, sem er rúmlega 11.300 tonnum minni afli en í júní 2012. Samdráttinn má rekja til um 6.100 tonna minni síldarafla, sem nam 764 tonnum í júní 2013, og rúmum 5.200 tonna minni makrílafla, sem nam tæpum 8.400 tonnum í júní 2013. Engar aðrar uppsjávartegundir voru veiddar í mánuðinum.

Flatfiskaflinn var tæp 2.100 tonn í júní 2013 og jókst um 46 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam rúmum 1.800 tonnum samanborið við rúmlega 1.700 tonna afla í júní 2012.

Munur á afla á föstu verði og í tonnum
Afli á föstu verði er reiknaður út til þess að finna breytingu á verðmæti heildaraflans að gefinni þeirri forsendu að verðhlutföll milli einstakra fisktegunda séu þau sömu og á ákveðnu viðmiðunartímabili sem hér er fiskveiðiárið 2011-2012. Hér er því um að ræða hliðstæðu við umreikning á afla yfir í þorskígildi. Aflinn í tonnum sýnir hins vegar magn aflans án tillits til þess að fisktegundir eru misjafnlega verðmætar.

Talnaefni