FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 12. OKTÓBER 2023

Landaður afli árið 2022 var tæplega 1.416 þúsund tonn sem er 23% meiri afli en landað var árið á undan. Aflaverðmæti við fyrstu sölu jókst um 20%, úr 162 milljörðum króna í 195 milljarða. Aukningin skýrist að mestu af meiri uppsjávarafla.

Útflutningur á sjávarafurðum árið 2022 var 707 þúsund tonn og jókst um 9% á milli áranna 2021 og 2022. Útflutningsverðmæti sjávarafurða 2022 var 352 milljarðar króna og jókst um 18,3% frá fyrra ári. Þorskafurðir námu 40% af útflutningsverðmætinu og seldust þær fyrir um 141 milljarð króna.

Mest var flutt út af sjávarafurðum til Noregs eða um 167 þúsund tonn að verðmæti 40 milljarða króna. Var þar mestmegnis um að ræða kolmunna, loðnu og síld til bræðslu. Álíka verðmæti fengust fyrir útflutning til Frakklands þar sem magnið var um 40 þúsund tonn, þar af voru 20 þúsund tonn af þorskafurðum. Mest útflutningsverðmæti árið 2022 var fyrir sölu sjávarafurða til Bretlands, eða um 54 milljarðar króna.


Talnaefni
Afli og ráðstöfun
Útflutningur sjávarafurða

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fiskitolur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.