FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 29. FEBRÚAR 2024

Heildaraflamagn íslenskra skipa árið 2023 var tæp 1.375 þúsund tonn að verðmæti 197,3 milljarða króna við fyrstu sölu aflans samkvæmt bráðabirgðatölum. Aflamagn dróst saman um 3% frá fyrra ári á meðan aflaverðmæti jókst um 1% samanborið við árið 2022. Rétt er að taka fram að viðskipti við fyrstu sölu afla endurspegla ekki endanlegt verðmæti sjávarafurða. Til viðmiðunar er áætlað að útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2023 hafi verið um 352 milljarðar.

Aflaverðmæti botnfiskafla við fyrstu sölu var tæplega 126 milljarðar króna. Þar af var þorskur verðmætastur, um 81 milljarður. Verðmæti ýsu var tæplega 19 milljarðar króna og verðmæti ufsa og karfa tæpir 11 milljarðar hvor tegund. Verðmæti uppsjávarafla var tæpir 52 milljarðar króna. Þar af nam verðmæti loðnu tæpum 19 milljörðum króna, makríls 13 milljörðum, kolmunna 11 milljörðum og síld tæpum 9 milljörðum. Verðmæti flatfiskafla var rúmir 12 milljarðar króna og skelfisks um 1,1 milljarður.

Stærstur hluti fiskaflans er seldur í beinni sölu útgerða til eigin vinnslu. Árið 2023 var 85% af heildarafla seldur í beinum viðskiptum og nam verðmæti þess afla 132 milljörðum króna sem er um 67% af heildarverðmæti aflans. Verðmæti sjófrysts afla nam rúmum 38,3 milljörðum og verðmæti afla sem fór á fiskmarkaði 31,2 milljörðum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fiskitolur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.