FRÉTT MIÐLUN 12. MARS 2015

Stórfelldur samdráttur hefur orðið í útgáfu og sölu leigu- og sölumynda frá síðustu aldamótum að telja. Sala leigumynda (mynddiska og myndbanda) frá útgefendum til myndaleiga hefur dregist saman um 98 af hundraði. Samsvarandi samdráttar hefur einnig gætt í útleigu frá myndaleigum. Verulegur samdráttur hefur einnig orðið í sölu sölumynda á undanförnum árum. Sala slíkra mynda frá útgefendum til smásala hefur dregist saman um meira en helming á undanförnum árum. Engum vafa er undirorpið að samdráttar á leigu- og sölumyndamarkaði er að rekja til stóraukins framboðs sjónvarpsefnis og nýrra miðlunarleiða á myndefni yfir Netið.

Á síðasta ári voru gefnir út 571 titlar leigu- og sölumynda á vegum stærstu útgefenda mynddiska. Þar af voru sölumyndir 434 talsins og leigumyndir 137. Fjöldi útgefinna sölumynda hefur dregist saman um þriðjung frá því að útgáfan var mest árið 2011. Útgáfa leigumynda hefur dregist saman nær samfellt frá árinu 2004, eða um 84 prósent (sjá mynd 1).

 

Langstærstur hluti leigu- og sölumynda sem gefnar eru út ár hvert eru bandarískar, eða sjö af hverjum tíu myndum. Á síðustu árum hefur uppruni útgefinna mynda smám saman orðið fjölbreyttari, einkum með auknum fjölda útgefinna evrópskra og ekki síst íslenskra mynda.

Leigumyndir
Sala leigumynddiska hefur dregist saman um 98 af hundraði frá því að best lét árið 2001. Það ár voru seldu útgefendur laust innan við 104 þúsund eintök myndbanda og mynddiska til myndaleiga, samanborið við aðeins 2.586 eintök á síðasta ári (sjá mynd 2).

 

Ráðgera má að samsvarandi samdráttar hafi gætt í útleigu mynda frá myndaleigum. Fjöldi útleigðra diska árið 2014 er áætlaður 250 þúsund. Frá 2001 hefur áætlaður fjöldi útleigðra mynddiska og myndbanda lækkað um tæplega 2,9 milljónir eintaka (sjá mynd 3).


 

Miðað við áætlaða útleigu árið 2014 má gera ráð fyrir að hver einstaklingur hafi leigt sér mynd einu sinni, samanborðið við milli tíu til ellefu sinnum þegar best lét um og upp úr aldamótunum síðustu. Inni í tölum um útleigu er hvorki leiga á myndum á vegum myndveita (Video-on-Demand) um síma og í sjónvarp eða á vegum annarra myndveita yfir Netið.

Sölumyndir
Lengi vel var eitt helsta einkenni íslensks myndbanda- og mynddiskamarkaðar takmarkað gengi sölumynda í samanburði við leigumyndir. Þetta breyttist upp úr aldamótunum þar sem sala sölumynda jókst jafnt og þétt, eða til ársins 2008 að samdráttar tók að gæta í sölu mynda.

 

Árið 2014 nam sala sölumynda á vegum útgefenda um 430 þúsund eintökum, eða ríflega 480 þúsund eintökum færra en þegar best lét árið 2008 þegar 910 þúsund eintök voru seld til smásölu frá útgefendum.


Um tölurnar
Árleg gagnasöfnun Hagstofunnar um útgáfu, dreifingu og sölu mynddiska og myndbanda tekur til helstu útgefenda og dreifenda. Tölur eru fengnar með góðfúslegu samþykki þeirra. Mat á fjölda útleigðra mynda er byggt á áætlun Myndmarks, samtökum rétthafa útgefenda leigumynda og myndaleiga, Screen Digest, sem og ýmsum öðrum tiltækum gögnum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.