FRÉTT MIÐLUN 27. SEPTEMBER 2017

Frá því um aldamót hefur árlegur fjöldi útgefinna bóka á pappír staðið að mestu í stað sé litið hjá árlegum sveiflum í fjölda útgáfa. Á árinu 2015 voru gefnar út hér á landi 1.488 bækur á pappír, eða 72 færri en árin 2013 og 2014. Á árabilinu 1999-2015 komu að jafnaði út árlega 1.597 bækur. Flestar voru útgáfurnar árið 2008 eða 1.800 talsins (sjá mynd 1).

 

Sú staðreynd að fjöldi útgefinna bóka hefur haldist tiltölulega stöðugur frá aldamótum að telja er þeim mun athyglisverðari þegar til þess er litið að bókin á í sívaxandi samkeppni frá margvíslegri afþreyingu á stafrænu formi. Á sama tíma hefur dregið úr útgáfu ýmiskonar smárita og skýrslna á pappír á vegum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, sem hefur færst yfir á Netið í stöðugt auknum mæli.

Á meðan bókaútgáfan hefur að mestu staðið í stað frá því um aldamót, hefur fjöldi útgefinna bóka farið lækkandi að tiltölu eftir fólksfjölda. Á árunum 1999 og 2000 voru gefnar út sex bækur á hverja 1.000 íbúa samanborið við innan við fimm bækur frá árinu 2012. Útgefnar bækur á hverja 1.000 íbúa árið 2015 voru 4,5 (sjá mynd 2).

 

Langflestar þeirra bóka sem gefnar eru út ár hvert eru íslensk höfundarverk, rituð á íslensku, eða sjö af hverjum tíu útgáfum. Hefur þetta hlutfall haldist svo til óbreytt frá aldamótum.

Útgefnar þýðingar úr ensku eru langsamlega flestar. Ríflega sex af hverjum tíu þýddum bókum sem út komu á árinu 2015 voru þýðingar úr ensku. Úr einstöku tungumáli voru næst flestar þýðingar úr sænsku, eða tíunda hver þýdd bók. Samtals voru þýðingar úr Norðurlandamálum, öðrum en íslensku, tvær af hverjum tíu og hefur það hlutfall haldist nær óbreytt um árabil. Þýðingar úr öðrum einstökum málum eru snöggtum færri.

Árið 2015 skiptist bókaútgáfan þannig að af hverjum 100 útgefnum titlum voru rit almenns efnis 76, fyrir börn og unglinga 21, og þrjár kennslu- og námsbækur (sjá mynd 3). Hlutur bóka fyrir börn og ungmenni hefur aukist nær samfellt frá 1999 á sama tíma og dregið hefur úr útgáfu rita almenns efnis og kennslubóka, en nærri lætur að útgáfur þeirra síðar töldu hafi helmingast frá aldamótum.

 

Tölur um útgefnar bækur eru teknar saman úr Íslenskri útgáfuskrá Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns (slóð: http://www.utgafuskra.is/) og birtar á vef Hagstofunnar. Upplýsingar Íslenskrar útgáfuskrár eru byggðar á upplýsingum úr bókasafnskerfinu Gegni og á skylduskilum útgefenda rita til Landsbókasafns – Háskólabókasafns. Skráin er uppfærð reglulega og í henni birtast þær útgáfur sem útgefendur hafa staðið skil á til safnsins. Niðurstöður talningar úr grunninum eru því ekki samhljóða frá einum tíma til annars. Hér er miðað við stöðu skráningar þann 6. september 2017. Tölur um fjölda útgefinna bóka hin síðustu ár eiga eftir að hækka frá því sem hér er miðað við með frekari innheimtu skylduskila frá útgefendum. Upplýsingar Íslenskrar útgáfuskrár taka aðeins til bóka útgefinna á pappír og hljóðbóka. Tölulegar upplýsingar um útgáfu bóka á stafrænu formi eru ekki tiltækar.

Tölulegur samanburður bókaútgáfunnar við fyrri ár er bundinn nokkrum annmörkum. Kemur það til af því að skráningu útgefinna rita var breytt samfara því sem Íslensk útgáfuskrá leysti Íslenska bókaskrá af hólmi fyrir fáum árum. Íslensk útgáfuskrá nær aðeins aftur til ársins 1999 og miðaðist skráning rita við titla í stað binda eins og í fyrri skrá. Á vef Hagstofunnar eru birtar eldri tölur um bókaútgáfuna samkvæmt Íslenskri bókaskrá, eða frá 1965 fram til loka árs 2000.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1051 , netfang Ragnar.Karlsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.