FRÉTT MENNTUN 25. SEPTEMBER 2020

Alls útskrifuðust 4.370 nemendur með 4.408 próf á háskóla- og doktorsstigi skólaárið 2018-2019 sem er svipaður fjöldi og árið áður. Doktorar hafa aldrei verið fleiri en þeir voru 101, 40 fleiri en árið áður. Um fjórir af hverjum tíu brautskráðum doktorum teljast hafa innflytjendabakgrunn, þ.e. eru fæddir erlendis og eiga erlenda foreldra. Sumir doktoranna hafa brautskráðst frá íslenskum háskólum í samstarfi við erlenda háskóla.

Alls voru 2.442 brautskráningar vegna fyrstu háskólagráðu, brautskráningar með viðbótardiplómu voru 466 og 1.323 brautskráningar vegna meistaragráðu (mynd 1). Eins og undanfarin ár voru konur um tveir af hverjum þremur nemendum sem luku háskólaprófi skólaárið 2018-2019 eða 65,8%.

Fleiri yngri stúdentar brautskráðir 2018-2019
Alls útskrifuðust 3.819 stúdentar úr 35 skólum skólaárið 2018-2019, 146 færri en skólaárið á undan en mun fleiri en árin þar á undan. Skólaárið 2018-2019 voru nokkrir framhaldsskólar með bekkjarkerfi að útskrifa síðustu stúdentana úr fjögurra ára námi um leið og útskrifaðir voru fyrstu nemendurnir úr þriggja ára námi.

Alls voru 51,9% stúdenta 19 ára og yngri en 21,7% voru 20 ára. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hefur hækkað mikið síðustu ár í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs en 20 ára stúdentum hefur fækkað (mynd 2).

Konur voru 60,1% nýstúdenta. Hlutfall allra stúdenta af fjölda tvítugra var 84,6%, sem er lítið eitt lægra en árið á undan þegar þetta hlutfall var hæst.

Færri brautskráðust með sveinspróf en fleiri með önnur réttindapróf á framhaldsskólastigi
Skólaárið 2018-2019 voru 625 brautskráningar með sveinspróf, 17 færri en árið áður (-2,6%). Hins vegar fjölgaði brautskráningum með burtfararpróf úr iðn úr 696 í 743, eða um 6,8%, en með því lýkur bóklega hluta iðnnáms. Þá voru 651 brautskráningar með ýmsum öðrum réttindaprófum starfsgreina á framhaldsskólastigi og fjölgaði um tæp 17% frá fyrra ári. Brautskráningar með iðnmeistarapróf voru 220, 15 færri en árið á undan. Fjórir af hverjum fimm sem luku sveinsprófi og iðnmeistaraprófi voru karlar en konur voru um helmingur þeirra sem lauk öðrum réttindaprófum úr starfsnámi á framhaldsskólastigi.

Þegar á heildina er litið brautskráðust 5.652 nemendur af framhaldsskólastigi með 6.512 próf skólaárið 2018-2019, um 200 nemendum færri en árið áður.

Talnaefni
Framhaldsskólastig - brautskráningar
Háskólastig - brautskráningar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.