FRÉTT MENNTUN 30. MAÍ 2018

Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 1. júní 2018 08:45 frá upprunalegri útgáfu.

Skólaárið 2015-2016 brautskráðust 10.875 nemendur úr skólum á Íslandi, bæði á framhalds- og háskólastigi. Brautskráðum nemendum fjölgaði um 280 (2,6%) frá fyrra ári þegar þessi skólastig eru tekin saman.

Alls útskrifuðust 4.554 nemendur með 4.593 próf á háskóla- og doktorsstigi og voru konur 65,6% þeirra sem luku háskólaprófi. Alls voru 2.753 brautskráningar vegna fyrstu háskólagráðu og brautskráningar með viðbótardiplómu voru 397. Þá voru 1.317 brautskráningar vegna meistaragráðu og 72 luku doktorsprófi. Doktorum hefur farið fjölgandi síðustu ár, og eingöngu skólaárið 2013-2014 hafa fleiri doktorar brautskráðst en þá voru þeir 84 talsins.

 

Piltum fjölgar meðal brautskráðra af framhaldsskólastigi
Alls brautskráðist 5.741 nemendi af framhaldsskólastigi með 6.374 próf skólaárið 2015-2016, 93 fleiri en árið á undan (1,6%) en færri en árin 2011-2014. Stúlkur voru lítið eitt fleiri en piltar meðal brautskráðra, eða 50,9%. Undanfarin ár hafa stúlkur verið 52-54% brautskráðra á framhaldsskólastigi og þarf að fara aftur til skólaársins 1998-1999 til að finna hærra hlutfall pilta meðal brautskráðra.

Fleiri stúdentar undir tvítugu
Alls útskrifuðust 3.421 stúdentar úr 34 skólum skólaárið 2015-2016, 172 fleiri en skólaárið á undan en svipaður fjöldi og 2012-2014. Konur voru 56,6% nýstúdenta. Hlutfall stúdenta af fjölda tvítugra var 73,3%.

Alls voru 11,9% stúdenta 19 ára og yngri en 47,3% voru 20 ára. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hefur hækkað frá skólaárinu 2013-2014 þegar það var 9,3% en stytting náms til stúdentsprófs er þó ekki komin til framkvæmda að fullu þau ár sem þessar tölur ná til.

Þá voru 522 nemendur 25 ára eða eldri þegar þeir luku stúdentsprófi, eða 15,3% stúdenta. Eldri stúdentar eru færri en undanfarin ár, því stúdentar 25 ára og eldri voru um 17% stúdenta skólaárin 2011-2015. Aldur er miðaður við áramótin eftir lok skólaársins.

Fleiri brautskráðust með sveinspróf en færri með iðnmeistarapróf
Alls var 631 brautskráning með sveinspróf skólaárið 2015-2016, 63 fleiri en árið áður (11,1%). Ekki hafa fleiri brautskráðst með sveinspróf á einu skólaári síðan skólaárið 2009-2010. Karlar voru 81,5% þeirra sem luku sveinsprófi.

Brautskráningar með iðnmeistarapróf voru 166, heldur færri en síðustu tvö skólaár á undan. Karlar voru 71,1% útskrifaðra iðnmeistara.

Sundurliðaðar upplýsingar um útskrifaða nemendur og fjölda brautskráninga má sjá á vef Hagstofu Íslands.

Talnaefni
   Framhaldsskólastig
   Háskólastig

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.