FRÉTT MENNTUN 08. SEPTEMBER 2009

Efnahags- og framfarastofnunin OECD hefur gefið út ritið Education at a Glance 2009, OECD Indicators. Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um menntun í 30 aðildarríkjum stofnunarinnar, sem og tölur frá Brasilíu, Chile, Eistlandi, Ísrael, Rússlandi og Slóveníu. Tölurnar eru aðallega frá skólaárinu 2006-2007. Meirihluti talna um Ísland er byggður á gögnum frá Hagstofu Íslands.

Ritið skiptist í fjóra kafla sem fjalla um: Áhrif menntunar á einstaklinga og samfélagið; fjárfestingu í menntun; aðgang að námi, þátttöku og framfarir í menntun og um skólaumhverfið og skipulag skólakerfisins. Í ritinu má finna fjölda taflna og línurita. Ítarefni má finna á vefsíðu OECD.

Aukinn hvati til að stunda nám næstu árin að sögn OECD
Árlegt rit OECD, Education at a Glance, kemur nú út í skugga erfiðleika í fjármálalífi heimsins. Þar sem ritið byggist aðallega á tölum frá skólaárinu 2006-2007 eru áhrif kreppunnar ekki komin fram í tölum í ritinu. OECD telur líklegt að aukinn hvati verði fyrir fólk að stunda nám næstu árin vegna erfiðleika í fjármálalífi. OECD bendir á að menntun er góð fjárfesting og að nettó ávinningur samfélagsins af fjárfestingu í háskólamenntun sé meiri en 50.000 bandaríkjadalir á nemanda að meðaltali í OECD-ríkjunum. Á tímum niðursveiflu í efnahagslífinu sé fórnarkostnaður nemenda við menntun vegna tapaðra launa minni en á uppgangstímum. Þá sé erfiðara fyrir nýútskrifaða að komast inn á vinnumarkaðinn þar sem þeir keppa við reynslumeiri starfsmenn. Yngra fólk með litla menntun sem verður atvinnulaust er líklegra til að vera atvinnulaust í lengri tíma. Með aukinni ásókn yngra fólks í menntun breikkar bilið á milli vel menntaðs yngra fólks og eldra starfsfólks sem oft hefur minni menntun og á erfitt með að fá starf ef það á annað borð missir vinnuna. Yfirvöld þurfa því að skoða hvernig hægt er að koma til móts við þarfir eldra fólks fyrir símenntun, segir OECD. Þess er vænst að útgjöld til menntamála verði grandskoðuð og tekist á um hvernig eigi að fjármagna menntun.

Jafnframt bendir OECD á tölur sem sýna félagslegar afleiðingar menntunar. Þannig eru þeir sem eru meira menntaðir líklegri til að vera við betri heilsu, hafa meiri áhuga á þjóðmálum og treysta betur öðrum í samfélaginu.

Ísland ver mestu OECD-ríkja til menntastofnana
Útgjöld Íslendinga til menntastofnana námu 8,0% af vergri landsframleiðslu árið 2006 og var Ísland í efsta sæti meðal OECD-ríkja hvað þessi útgjöld varðar (mynd 1). Vegið meðaltal OECD-ríkja er 6,1% og meðaltal ríkjanna er 5,7%. Útgjöld til menntastofnana sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafa verið óbreytt á Íslandi frá árinu 2003 þegar útgjöld til menntunar í leikskólum voru í fyrsta skipti talin með í útgjöldum til menntamála. Á Íslandi fóru 18,1% útgjalda hins opinbera til menntamála árið 2006 en að meðaltali vörðu OECD-ríkin 13,3% útgjalda hins opinbera til menntamála.

Almennt má segja að aldursdreifing þjóðanna og þátttaka í menntun hafi veruleg áhrif á útgjöld til menntamála. Þannig eru útgjöld yfirleitt hærri í löndum þar sem börn og unglingar eru stór hluti íbúa og þar sem nemendur eru hátt hlutfall mannfjöldans, eins og á Íslandi.

Þegar útgjöld á nemanda frá grunnskóla til háskóla eru skoðuð vörðu OECD-ríkin að meðaltali 7.840 bandaríkjadölum á nemanda árið 2006 en Ísland varði 8.823 dölum á nemanda á árinu. Nemendum á háskólastigi fjölgaði um 54% á Íslandi á milli áranna 2000 og 2006. Útgjöld til háskólastofnana héldu ekki í við fjölgun nemenda og voru útgjöld á nemanda á háskólastigi árið 2006 90% af útgjöldum á nemanda árið 2000. Þegar grunnskóla- og framhaldsskólastig eru tekin saman jukust útgjöld á nemanda á Íslandi hins vegar um 35% á sama tímabili.

Vaxandi fjöldi útlendinga stundar háskólanám á Íslandi
Í fyrsta sinn birtast tölur frá Íslandi í Education at a Glance um hreyfanlega háskólanemendur, þ.e. nemendur sem fara á milli landa til að stunda nám. Þá eru skiptinemar ekki taldir með þegar upplýsingar um þá liggja fyrir. Hreyfanlegir háskólanemar á Íslandi eru 5,2% allra nemenda á háskóla- og doktorsstigi skólaárið 2006-2007 og 11,9% ef eingöngu doktorsnemar eru skoðaðir. Ef aðeins er litið á erlenda ríkisborgara í háskólanámi á Íslandi eru þeir 4,9% nemenda og 14,4% ef aðeins er litið á doktorsnema (mynd 2). Íslenskir háskólar laða að sér vaxandi fjölda útlendinga og hefur fjöldi erlendra ríkisborgara við háskólanám á Íslandi tæplega tvöfaldast frá skólaárinu 1999-2000.

Fleiri hefja háskólanám en útskrifast með stúdentspróf á Íslandi
Fleiri nýnemar hefja nám á háskólastigi á Íslandi en ljúka stúdentsprófi ár hvert, m.a. vegna erlendra nemenda sem koma til að stunda nám á Íslandi. Ísland hefur eitt hæsta nettó innritunarhlutfall allra OECD-landa í fræðilegt háskólanám (stig 5A), 73%, en meðaltal OECD-landa er 56%. Þegar tekið er tillit til erlendra háskólanemenda er innritunarhlutfall á Íslandi 61%. Nettó innritunarhlutfall er reiknað þannig að fundið er hlutfall nýinnritaðra eftir aldri af mannfjölda á sama aldri og síðan er lagt saman fyrir alla aldurshópa.

Tvöfalt fleiri konur en karlar útskrifast úr fræðilegu háskólanámi á Íslandi
Á Íslandi er nettó útskriftarhlutfall í háskólanámi það hæsta sem gerist í OECD-löndunum. Nettó útskriftarhlutfall fyrir fyrstu háskólagráðu úr fræðilegu háskólanámi á Íslandi er 63,1% en meðaltal OECD-ríkja er 38,7%. Útskriftarhlutfallið á Íslandi er 88,7% hjá konum og 39,5% hjá körlum. Hvergi í OECD-ríkjunum er meiri munur á útskriftarhlutfalli karla og kvenna. Nettó útskriftarhlutfall er fundið þannig að reiknað er hlutfall útskrifaðra eftir aldri af mannfjölda á sama aldri og síðan er hlutfallið lagt saman fyrir alla aldurshópa.

Íslenskir grunnskólakennarar verja 75% kennslutímans til kennslu
OECD stóð fyrir svokallaðri TALIS-könnun á kennurum og skólastjórnendum á unglingastigi í 24 löndum skólaárið 2007-2008. Á Íslandi tóku einnig þátt kennarar og skólastjórnendur á barnaskólastigi. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur m.a. fram að kennarar í þátttökulöndunum verja um 80% kennslutímans til kennslu en hluti kennslutímans fer í að halda uppi aga í bekknum og í utanumhald. Á Íslandi er hlutfallið 75% en tæplega 17% kennslutímans fer í að halda uppi aga í kennslustofunni, sem er með því mesta sem gerist í TALIS-löndunum. Í 13,8% skóla í þátttökulöndunum hafði ekki farið fram mat á skólastarfinu undanfarin 5 ár en samsvarandi tala á Íslandi var 5,0%. Kennarar eru almennt jákvæðir í garð mats á starfi sínu og telja að það geri þá ánægðari í starfi og geri starfið árangursríkara. Þrír af hverjum fjórum kennurum í TALIS-löndunum gera ekki ráð fyrir að fá umbun fyrir að skila betra starfi. Kennarar á Íslandi eru fremur ánægðir í starfi og hafa góða trú á eigin getu. Þeir fylgja hugmyndum hugsmíðahyggju (e. constructivism) um kennslu meira en í nokkru öðru TALIS-landi, en samkvæmt þessum hugmyndum eru nemendur virkir þátttakendur í þekkingarleitinni og finna eigin lausnir á vandamálum.

Grunnlaun kennara sem hlutfall af landsframleiðslu næstlægst á Íslandi
Hlutfall grunnlauna grunnskólakennara eftir 15 ára starfsaldur af landsframleiðslu á mann er 0,71 á Íslandi árið 2006-2007. Aðeins í Noregi er hlutfallið lægra en á Íslandi, eða 0,68. Meðaltal OECD-ríkja er 1,17 á barnaskólastigi og 1,23 á unglingastigi. Á framhaldsskólastigi er sömu sögu að segja en þar er hlutfallið á Íslandi 0,90, í Noregi 0,72 en að meðaltali 1,30 í OECD-ríkjunum. OECD bendir á að alþjóðlegur samanburður á launum kennara sé vandasamur. Þannig sé kennslutími kennara mislangur á milli landa og bekkir misstórir. Þá er ekki tekið tillit til aukagreiðslna af ýmsu tagi, né heldur skatta og ýmissa annarra opinberra greiðslna.

Fréttatilkynningu OECD um Education at a Glance má finna á vef OECD.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.