FRÉTT MENNTUN 09. SEPTEMBER 2008

Efnahags- og framfarastofnunin OECD hefur gefið út ritið "Education at a Glance 2008, OECD Indicators". Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um menntun í 30 aðildarríkjum stofnunarinnar, sem og tölur frá Brasilíu, Chile, Eistlandi, Ísrael, Rússlandi og Slóveníu. Tölurnar eru aðallega frá skólaárinu 2005-2006. Meirihluti talna um Ísland er byggður á gögnum frá Hagstofu Íslands.

Ritið skiptist í fjóra kafla sem fjalla um: Áhrif menntunar á einstaklinga og samfélagið; fjárfestingu í menntun; aðgang að námi, þátttöku og framfarir í menntun og um skólaumhverfið og skipulag skólakerfisins. Í ritinu má finna fjölda taflna og línurita. Ítarefni má finna á heimasíðu OECD á netinu (http://www.oecd.org).

Fjölgun háskólanemenda og fjármögnun náms í OECD ríkjum
Í ritinu fjallar OECD m.a. um þær ákvarðanir sem ríkisstjórnir aðildarlandanna standa frammi fyrir vegna fjölgunar háskólanemenda ár frá ári. Ríkin hafa átt í erfiðleikum með að auka útgjöld til háskólastigsins í sama mæli og þess vegna hafa útgjöld á nemanda á háskólastigi lækkað í mörgum aðildarlandanna. Árið 1995 sóttu að meðaltali 37% fólks á háskólaaldri í OECD löndunum háskóla en nú er hlutfallið 57% að meðaltali. OECD segir að fleiri telji að kostnaði við menntun skuli skipt á milli opinberra aðila og einkaaðila, a.m.k. á háskólastigi, þar sem bæði einkaaðilar og opinberir aðilar njóti ávinningsins af háskólamenntun. Að sögn OECD hafa mörg Evrópulönd ekki aukið opinber útgjöld til háskóla í takt við fjölgun nemenda, með þeim afleiðingum að útgjöld á nemanda eru að meðaltali meira en tvöfalt hærri í Bandaríkjunum en í Evrópu. Sum löndin heimili háskólum ekki að innheimta skólagjöld og því aukist fjárhagsvandi háskólanna. Það muni hugsanlega leiða til þess að gæði námsins minnki, sérstaklega ef háskólanemendum heldur áfram að fjölga. Ríkisstjórnir landanna standi því frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um fjármögnun háskólamenntunar.

Á grunn- og framhaldsskólastigi jukust útgjöld hraðar en fjölgun nemenda frá 1995 til 2005 í öllum aðildarlöndunum, og hraðar en þjóðarframleiðsla á mann í tveimur þriðju landanna. Þess vegna hafa útgjöld á nemanda aukist á þessum skólastigum. Á sama tíma fer nemendum fækkandi í sumum landanna vegna þess að árgangar eru minni en áður fyrr. Þess vegna verður frekara svigrúm til að bæta gæði menntunar á þessum skólastigum ef fjárveitingar verða þær sömu áfram.
Í ritinu er skoðað sambandið á milli bekkjarstærðar, fjölda kennslustunda sem nemendur fá, fjölda kennslustunda sem kennarar kenna og launa kennara á framhaldsskólastigi. Í ljós kemur að ríkin hafa tekið mismunandi ákvarðanir í stefnumörkun sinni í menntamálum. Greiningin sýnir m.a. að í löndum þar sem launakostnaður á nemanda á framhaldsskólastigi sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á mann er hvað lægstur er meginástæðan sú að laun kennara, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á mann, eru lág en bekkjarstærð, lengd náms og fjöldi kennslustunda skipta minna máli. Meðal þessara landa eru Ísland, Írland, Noregur, Pólland, Slóvakía og Svíþjóð. Undantekningin er Mexíkó, þar sem laun kennara eru há en á móti kemur að bekkir eru einnig stórir.

Ísland ver mestu OECD ríkja til menntastofnana
Útgjöld til menntastofnana jukust í öllum OECD löndunum frá 1995 til 2005 og að meðaltali um 19% frá 2000 til 2005. Að meðaltali vörðu OECD ríkin 6,1% af vergri landsframleiðslu til menntastofnana árið 2005. Ríkin vörðu stærri hluta opinberra útgjalda til menntamála árið 2005 en árið 1995. Þannig jukust útgjöld til menntastofnana sem hlutfall af opinberum útgjöldum úr 11,9% í 13,2% frá 1995 til 2005 innan OECD.

Útgjöld Íslendinga til menntastofnana námu 8,0% af vergri landsframleiðslu árið 2005 og var Ísland í efsta sæti meðal OECD ríkja hvað þessi útgjöld varðar. Útgjöld til menntastofnana sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafa aukist á Íslandi frá 2000 til 2005. Frá árinu 2000 til ársins 2005 hafa útgjöld til allra skólastiga á Íslandi aukist um 61% á föstu verðlagi og er það mesta aukning innan OECD á þessu tímabili. Útgjöld til grunn- og framhaldsskóla jukust um 40% og til háskóla um 77%. Á sama tíma hefur þjóðarframleiðsla aukist um 23%.

Almennt má segja að aldursdreifing þjóðanna og þátttaka í menntun hafi veruleg áhrif á útgjöld til menntamála. Þannig eru útgjöld yfirleitt hærri í löndum þar sem börn og unglingar eru stór hluti íbúa og þar sem nemendur eru hátt hlutfall mannfjöldans. Á Íslandi eru nemendur rúmlega 30% íbúa, sem er næsthæsta hlutfall innan OECD; aðeins í Mexíkó eru nemendur hærra hlutfall af íbúafjölda.

Þegar útgjöld á nemanda frá grunnskóla til háskóla eru skoðuð er Ísland í 7. sæti OECD ríkja og varði Ísland 8.931 bandaríkjadal á nemanda árið 2005. Meðaltal OECD ríkjanna er 7.527 bandaríkjadalir. Ísland er í 2. sæti OECD ríkja yfir útgjöld til menntunar á leikskólastigi, í 2. sæti á barnaskólastigi og 6. sæti á unglingastigi. Ísland er hins vegar undir meðaltali OECD ríkjanna þegar útgjöld á nemanda á framhaldsskólastigi (12. sæti) og á háskólastigi (18. sæti) eru skoðuð.

Skipting útgjalda til menntamála á milli þess opinbera annars vegar og einkaaðila hins vegar hefur verið til umræðu á Íslandi sem og í öðrum OECD ríkjum. Í nærri þremur af hverjum fjórum OECD ríkjum jukust útgjöld einkaaðila til menntunar meira en útgjöld opinberra aðila til menntunar frá 1995 til 2005, enda þótt tæplega 86% útgjalda til menntunar komi frá opinberum aðilum. Útgjöld einkaaðila til menntastofnana á Íslandi hækkuðu lítillega á milli áranna 2000 og 2005, eða frá 8,9% í 9,1% af öllum útgjöldum til menntastofnana (sjá mynd 1). Meðtaltal OECD ríkja er 14,5% og eru útgjöld einkaaðila á Íslandi því talsvert lægri en að meðaltali í OECD ríkjunum.

Vaxandi fjöldi Íslendinga stundar nám
Nemendum á Íslandi hefur fjölgað ár frá ári. Þannig stunduðu 84,6% 15-19 ára unglinga nám skólaárið 2005-2006 en meðaltal OECD ríkjanna var 81,5% (sjá mynd 2). Í aldurshópnum 20-29 ára eru 37,2% Íslendinga í námi. Eingöngu í Finnlandi og Danmörku stunda fleiri nám á þessum aldri. Þá eru 12,5% fólks á fertugsaldri í námi og 3,4% þeirra sem eru fertugir eða eldri. Ísland hefur næsthæsta nettó innritunarhlutfall allra OECD landa í fræðilegt háskólanám á eftir Ástralíu, 78%, en meðaltal OECD landa er 56%. Nettó innritunarhlutfall er reiknað þannig að fundið er hlutfall nýinnritaðra eftir aldri af mannfjölda á sama aldri og síðan er lagt saman fyrir alla aldurshópa. Þetta háa innritunarhlutfall á Íslandi skýrist að hluta til af fjölda eldri háskólanema enda eru 20% nýnema á Íslandi 40 ára eða eldri. Svo hátt innritunarhlutfall mun því væntanlega ekki haldast til lengdar þar sem fjöldi eldra fólks sem aldrei hefur stundað háskólanám er takmarkaður.

Á Íslandi eru konur 60% nýnema á háskólastigi, en meðaltal OECD landanna er 54%. Hlutfallslega stór hluti nýnema á háskólastigi á Íslandi stundar nám í félagsvísindum, viðskiptafræðum, lögfræði og þjónustu  (40% nýnema) og í hugvísindum, listum og menntun (31% nýnema). Konur eru mikill meirihluti nýnema á þessum sviðum, sem og í heilbrigðisgreinum. Alls stunda 9% nýnema nám í verkfræði- og byggingagreinum en þar eru konur 33% nýnema. Aðeins í Danmörku er hlutfall kvenna hærra í þessum greinum, eða 35%. Nýnemar í raunvísindum og landbúnaði eru 6% nýnema. Þar eru konur 59% allra nýnema, sem er næsthæsta hlutfall kvenna innan OECD. Í Portúgal eru konur 60% nýnema í þessum greinum.

Á Íslandi er nettó útskriftarhlutfall í háskólanámi það hæsta sem gerist í OECD löndunum. Nettó útskriftarhlutfall fyrir fyrstu háskólagráðu úr fræðilegu háskólanámi (stig 5A) á Íslandi er 62,8% en meðaltal OECD ríkja er 37,3%. Útskriftarhlutfallið á Íslandi er 86,5% hjá konum og 40,2% hjá körlum. Hvergi í OECD ríkjunum er meiri munur á útskriftarhlutfalli karla og kvenna. Að auki er nettó útskriftarhlutfall fyrir starfsnám á háskólastigi (stig 5B) á Íslandi 4,1% en 9,1% að meðaltali í OECD ríkjum. Nettó útskriftarhlutfall er fundið þannig að reiknað er hlutfall útskrifaðra eftir aldri af mannfjölda á sama aldri og síðan er hlutfallið lagt saman fyrir alla aldurshópa.

Hlutfall þeirra sem útskrifast í fyrsta sinn af framhaldsskólastigi á Íslandi er 90%, 100% meðal kvenna og 81% meðal karla. Þá eru taldir allir þeir sem útskrifast í fyrsta sinn af framhaldsskólastigi óháð aldri. Á Íslandi er deilt með fjölda tvítugra. Útskriftarhlutfall OECD landanna á framhaldsskólastigi er 83%.

Valddreifing hefur aukist í skólakerfinu
Valddreifing hefur aukist í um helmingi OECD landanna frá 2003 til 2007. Á Íslandi og í Ástralíu hefur verið mest hreyfing í átt til valddreifingar á þessum árum, þar sem a.m.k. 15% fleiri ákvarðanir eru teknar á lægra stjórnsýslustigi. Árið 2007 voru 40% ákvarðana á unglingastigi á Íslandi teknar í skólunum en voru 25% ákvarðana árið 2003.
 
Fréttatilkynningu OECD um Education at a Glance og samantekt úr ritinu á íslensku má finna á heimasíðu OECD, http://www.oecd.org.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.