FRÉTT MENNTUN 12. SEPTEMBER 2006

OECD hefur gefið út ritið Education at a Glance, OECD Indicators 2006. Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um menntun í 30 aðildarríkjum stofnunarinnar. Einnig er þar að finna tölur frá Brasilíu, Chile, Ísrael og Rússlandi, sem standa utan OECD. Tölurnar eru aðallega frá skólaárinu 2003-2004.

Ritið skiptist í fjóra kafla sem fjalla um áhrif menntunar á einstaklinga og samfélagið; fjárfestingu í menntun; aðgang að námi, þátttöku og framfarir í menntun og um skólaumhverfið og skipulag skóla–kerfisins. Ritinu fylgir samantekt auk fjölda taflna og línurita. Ítarefni má finna á heimasíðu OECD á netinu (http://www.oecd.org).

Menntun og mannauður
OECD leggur áherslu á gildi menntunar í uppbyggingu hagkerfa og samfélaga. Mannauður er lykilatriði í hagvexti og í bættri afkomu fólks. Í flestum OECD löndum hækkar menntunarstig þjóðarinnar þar sem æ fleiri íbúar ljúka framhaldsskólaprófi og háskólagráðu. Útgjöld til menntunar eru að aukast í OECD löndunum, en aukningin heldur þó ekki alls staðar í við aukinn fjölda nemenda. Í ritinu er skoðað hvernig breytingar á aldursskiptingu munu hafa áhrif á útgjöld til menntamála. Í mörgum löndum hefur fæðingartíðni farið lækkandi og má búast við að færri börn verði í skyldunámi í 23 af 30 OECD löndum á næsta áratug. Er Ísland þeirra á meðal.

OECD bendir einnig á að meðlimalönd hafi mismunandi áherslur í menntamálum. Enda þótt grunnskólanám sé alls staðar skyldunám leggja löndin mismunandi mikla áherslu á þætti eins og bekkjarstærð, fjölda nemenda á kennara, laun og vinnutíma kennara og notkun upplýsingatækni í skólum.

Skólasókn
Árið 2004 gat fimm ára barn á Íslandi vænst þess að sækja skóla í 19,7 ár, sem er aukning um hálft ár frá árinu 2003. Meðaltal OECD ríkja er 17,4 ár Væntanleg skólaganga á Íslandi er 5. lengst af OECD ríkjunum. Íslenskir drengir geta vænst þess að sækja skóla að meðaltali í 18,5 ár en stúlkur í 20,9 ár. Munurinn á væntanlegri skólasókn drengja og stúlkna á Íslandi er með því mesta sem þekkist í OECD ríkjunum. Það vekur athygli að væntanleg skólasókn á framhaldsskólastigi á Íslandi er 5,3 ár, enda þótt flestar námsbrautir á framhaldsskólastigi séu fjögurra ára. Væntanleg skólasókn á háskólastigi er 3,5 ár. Margir Íslendingar sækja skóla eftir að hefðbundnum skólaaldri lýkur. Þannig er rúmlega þriðjungur aldurshópsins 20-29 ára (37,3%) í námi og einn af hverjum níu (11,1%) íbúum á aldrinum 30-39 ára.


Nemendum á háskólastigi hefur fjölgað hratt undanfarin ár á Íslandi, eins og í flestum OECD löndum. Frá 1995 til 2004 rúmlega tvöfaldaðist fjöldi nemenda á háskólastigi á Íslandi. Ísland hefur eitt hæsta innritunarhlutfall allra OECD landa í fræðilegt háskólanám og mun 79% ungs fólks á Íslandi stunda fræðilegt háskólanám ef núverandi innritunarhlutfall helst. Þá munu 8% stunda starfsnám á háskólastigi. Innritunarhlutfall er reiknað þannig að fundið er hlutfall nýinnritaðra eftir aldri af mannfjölda á sama aldri, og síðan lagt saman fyrir alla aldurshópa. Þetta háa innritunarhlutfall á Íslandi skýrist að hluta til af fjölda eldri háskólanema. Svo hátt innritunarhlutfall mun því ekki haldast til lengdar þar sem fjöldi eldra fólks sem aldrei hefur stundað háskólanám er takmarkaður. Þetta hlutfall var 83% fyrir árið 2003 og hefur því lækkað um 4 prósentustig á einu ári.

Á Íslandi eru hlutfallslega fleiri eldri háskólanemar en í flestum öðrum OECD löndum. Þannig er helmingur nýnema í fræðilegu háskólanámi á Íslandi 23,5 ára eða eldri og fimmtungur nýnema eru eldri en þrítugir.

Útgjöld til menntamála
Heildarútgjöld Íslendinga til menntamála námu 8,0% af vergri landsframleiðslu árið 2003 og er Ísland í efsta sæti meðal OECD ríkja hvað þessi útgjöld varðar. Meðaltal OECD ríkja er 5,9%. Af þessum 8,0 prósentum eru 7,5 prósentustig vegna útgjalda opinberra aðila og 0,5 prósentustig vegna einkaútgjalda til menntamála. Árið 2002 vörðu Íslendingar 7,4% af vergri landsframleiðslu til menntamála. Framlög til leikskólastigsins eru í fyrsta skipti með í tölum fyrir árið 2003. Almennt má segja að aldursdreifing þjóðanna hafi veruleg áhrif á hvers kyns samanburð útgjalda til menntamála. Þegar útgjöld á nemanda frá grunnskóla til háskóla eru skoðuð er Ísland í 15. sæti OECD ríkja með 7.438 bandaríkjadali á hvern nemanda í fullu námi en meðaltal OECD ríkja er 6.827 bandaríkjadalir. Ísland ver talsvert yfir meðaltali OECD ríkja til menntunar á leikskólastigi (3. sæti) og grunnskólastigi (6. sæti á barnaskólastigi og 12. sæti á unglingastigi) en er undir meðaltali hvað varðar útgjöld á nemanda á framhaldsskólastigi (19. sæti) og á háskólastigi (21. sæti). Framlög Íslands á nemanda í bandaríkjadölum hafa hækkað á grunnskólastigi en lækkað á framhaldsskólastigi og háskólastigi frá árinu 2002 enda þótt heildarútgjöld til framhaldsskóla og háskóla hafi aukist á milli ára. Þegar tekið er tillit til lengdar náms á grunnskóla- og framhaldsskólastigi verja Íslendingar 102.527 bandaríkjadölum á nemanda í þessi 14 ár sem námið tekur. Meðaltal OECD ríkja er 77.204 bandaríkjadalir í 12,4 ár.

Fjármögnun náms
Mikil umræða hefur farið fram í OECD löndunum um fjármögnun menntunar. Að meðaltali greiðir almannafé 93% af kostnaði við menntun í grunnskólum og framhaldsskólum í OECD ríkjunum. Hlutur einkaaðila í fjármögnun menntunar jókst á þessu skólastigi í jafnmörgum löndum og hann dróst saman á árunum 1995-2003. Á sama tímabili hefur hlutur einkaaðila í útgjöldum til menntunar á háskólastigi aukist í öllum löndunum sem sambærilegar tölur eru til fyrir. Að meðaltali voru 76,4% af útgjöldum til háskólastigsins greidd af opinberum aðilum árið 2003. Stærstur hluti fjármögnunar háskólanáms frá einkaaðilum í OECD ríkjunum kemur frá heimilum, aðallega í formi skólagjalda.

OECD segir að menntun sé góð fjárfesting fyrir einstaklinga. Þannig sýna tölur að sú fjárfesting að ná sér í háskólagráðu sem hluta af grunnmenntun beri a.m.k. 8% ársávöxtun í þeim 11 löndum sem tölur eru til fyrir, og allt að 22,6% meðal karla í Ungverjalandi.

Bekkjarstærð í grunnskólum
Tölur um bekkjarstærð í grunnskólum sýna að bekkir í íslenskum grunnskólum eru minni en í grunnskólum flestra annarra OECD landa. Að meðaltali er 17,1 nemandi í bekk á barnaskólastigi (1.-7. bekk) á Íslandi og 18,5 nemendur á unglingastigi (8.-10. bekk). Hvergi í OECD löndum eru minni bekkir á unglingastigi en á Íslandi. Á barnaskólastigi eru bekkir í Lúxemborg og Portúgal minni en á Íslandi. Meðaltal OECD landa er 21,4 nemendur á barnaskólastigi, og 24,1 nemendur á unglingastigi. OECD bendir um leið á að minni bekkir skili ekki endilega betri árangri í námi heldur þurfi einnig að skoða námsgrein sem um er að ræða, röðun nemenda í bekki, teymiskennslu og hvernig vinnutími kennara skiptist á milli kennslu og annarra starfa.

Fjöldi vinnustunda kennara í grunnskólum
Samkvæmt Education at a Glance kenndu grunnskóla- og framhaldsskólakennarar á Íslandi í 36 vikur, eða í 175 daga, skólaárið 2003-2004. Heildarvinnutími kennara var 1.800 klukkustundir. Meðaltal OECD ríkjanna er 37-38 vikur og tæplega 1.700 klukkustunda heildarvinnutími. OECD bendir á að kennarar á Íslandi vinni fleiri stundir á 36 vikna skólaári en kennarar í Danmörku þar sem skólaárið er 42 vikur. Á það skal bent að kjarasamningar hafa verið gerðir við kennara á Íslandi eftir viðmiðunartíma þessara talna.

Fréttatilkynningu OECD um Education at a Glance og samantekt úr ritinu á íslensku má finna á heimasíðu OECD, http://www.oecd.org.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.