FRÉTT MENNTUN 14. SEPTEMBER 2004

OECD hefur gefið út ritið "Education at a Glance, OECD Indicators 2004". Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um menntun í hinum 30 aðildarríkjum stofnunarinnar. Einnig er þar að finna tölur um 20 lönd utan OECD, og veitir hluti taflnanna upplýsingar um menntun um 2/3 hluta íbúa heimsins. Tölurnar eru aðallega frá skólaárinu 2001-2002.
     Ritið skiptist í fjóra kafla, sem fjalla um áhrif menntunar fyrir einstaklinga og samfélagið; fjárfestingu í menntun; aðgang að námi, þátttöku og framfarir í menntun og um skólaumhverfið og skipulag skólakerfisins. Ritinu fylgir samantekt auk fjölda taflna og línurita.
     OECD segir menntun gegna vaxandi hlutverki í velgengni einstaklinga og þjóða. Mannauður hefur lengi verið talinn lykilatriði í að berjast á móti atvinnuleysi og lágum launum en nú er sönnun fyrir því að mannauður tengist bættri heilsu og betri líðan. Þau bættu áhrif sem menntun leiðir af sér hafa leitt til aukinnar þátttöku í menntun meðal fólks á öllum aldri, frá barnæsku til fullorðinsára. Ríkisstjórnir standa frammi fyrir því að tryggja fjölbreytt tækifæri til menntunar á hagkvæman hátt, að sögn OECD.
      Samkvæmt Education at a Glance sýna rannsóknir tengsl á milli mannauðs og hagvaxtar. Vaxtarrannsókn OECD metur að meðal OECD landa séu langtímaáhrif á afköst af einu viðbótarári menntunar meðal fullorðinna almennt á bilinu 3-6%. Sömuleiðis er mannauður lykilþáttur í að auka framleiðni starfsfólks.
      Útgjöld Íslendinga til menntamála námu 6,7% af vergri landsframleiðslu árið 2001. Ísland er í 4. sæti OECD ríkja, á eftir Kóreu, Bandaríkjunum og Danmörku. Meðaltal OECD ríkja er 5,6%. Ísland ver mestum fjármunum allra OECD ríkja til grunnskóla- og framhaldsskólastigsins, eða 5,2% af landsframleiðslu, en aðeins 0,9% landsframleiðslunnar fer til háskólastigsins. Þegar útgjöld á nemanda frá grunnskóla til háskóla eru skoðuð er Ísland í 10. sæti OECD ríkja með 7.101 bandaríkjadali á hvern nemanda í fullu námi en meðaltal OECD ríkja er 6.190 bandaríkjadalir. Að meðaltali eyða OECD lönd rúmlega tvisvar sinnum meiri fjármunum í hvern nemanda á háskólastigi en í nemanda á barnaskólastigi. Ísland, ásamt Ítalíu, Portúgal og Grikklandi eyðir aðeins 1,2-1,3 sinnum meira í nemenda á háskólastigi en á barnaskólastigi.
      Í ritinu eru kynntar niðurstöður úr könnunum á læsi í 4. bekk grunnskóla, svokölluðum IEA og PIRLS könnunum. Niðurstöður frá árunum 1991 og 2001 eru bornar saman fyrir 9 lönd, þeirra á meðal Ísland. Marktækur munur var á frammistöðu íslenskra barna árið 2001 miðað við 1991, og höfðu þau bætt sig úr 486 stigum í 513 stig að meðaltali. Íslenskar stúlkur stóðu sig betur en íslenskir drengir bæði árin, en árið 2001 var ekki lengur marktækur munur á frammistöðu stúlkna og drengja. Ísland var eina landið þar sem meira en helmingur nemenda sagðist lesa daglega sér til ánægju.
      Í ritinu er skoðuð staða ungs fólks á aldrinum 20-24 ára, sem ekki hefur lokið framhaldsskólastigi og ekki stundar nám. Litið er svo á að þessi hópur sé í hættu á að sitja eftir í þjóðfélagi nútímans sem krefst menntaðs vinnuafls. Þessi hópur er líklegri til að vera atvinnulaus og sinna minna krefjandi störfum. Á Íslandi tilheyra tæplega 30% 20-24 ára fólks þessum hópi en meðaltal OECD landa er 19%. Í fjórum löndum OECD ríkja eru fleiri ungmenni í þessum hópi en á Íslandi, það er í Mexíkó, Tyrklandi, Portúgal og Spáni. Á Íslandi, í Portúgal og á Spáni eru flestir í þessum hópi í starfi á vinnumarkaðinum. Í 19 af 27 OECD löndum, þar á meðal Íslandi, eru karlar fjölmennari í þessum hópi en konur.
     Nemendum á háskólastigi hefur fjölgað undanfarin ár á Íslandi, eins og í flestum OECD löndum. Ef núverandi tíðni innritunar í háskólanám helst óbreytt mun rúmlega helmingur ungs fólks í OECD löndum stunda fræðilegt háskólanám, og yfir 70% ungs fólks á Íslandi, Finnlandi, Svíþjóð og Ástralíu. Á Íslandi eru hlutfallslega fleiri eldri háskólanemar en í flestum öðrum OECD löndum. Þannig er helmingur nýnema í fræðilegu háskólanámi á Íslandi 23 ára eða eldri og fimmtungur nýnema eru eldri en þrítugir.
     Hlutfallslega margir útskrifast úr háskólanámi á Íslandi. Útskriftarhlutfall með fyrstu háskólagráðu úr fræðilegu háskólanámi á Íslandi er 41% en meðaltal OECD ríkja er 32%. Að auki er útskriftarhlutfall fyrir starfsnám á háskólastigi á Íslandi 6% en 10% að meðaltali í OECD ríkjum. Útskriftarhlutfall er reiknað þannig að í fjölda útskrifaðra er deilt með fjölda í dæmigerðum aldursárgangi. Þetta háa útskriftarhlutfall íslenskra háskólanema í fræðilegu háskólanámi má m.a. skýra með því að margir nemendanna eru eldri en dæmigerður nemandi þegar þeir útskrifast. Einnig hefur hlutur fræðilegs háskólanáms aukist á Íslandi undanfarin ár á kostnað starfsnáms á háskólastigi.
     Hvergi í OECD löndunum er hlutfall kvenna sem útskrifast úr fræðilegu háskólanámi hærra sé borið saman við karla en á Íslandi. Hér á landi voru tvær af hverjum þremur fyrstu háskólagráðum veittar konum. Ef litið er á meistaragráður var hlutfallið jafnara, en þar hlutu karlar rúmlega helming (52%) gráðanna en konur tæplega helming (48%).
       Fréttatilkynningu OECD um Education at a Glance má finna á heimasíðu OECD, http://www.oecd.org.
 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.