FRÉTT MENNTUN 03. OKTÓBER 2013

Árið 2012 sóttu 71.900 manns á aldrinum 16-74 sér fræðslu, annað hvort í skóla eða aðra fræðslu með leiðbeinanda, 32,1% landsmanna. Frá árinu 2003 hefur hlutfall landsmanna á aldrinum 16-74 sem stundar einhvers konar menntun heldur farið hækkandi. Hlutfallið var 28,3% árið 2003 en fór hæst í 33,1% árið 2006.

Sé aðeins miðað við aldurinn 25-64 ára, sem er virkasti hópurinn á vinnumarkaði, sóttu 27,1% landsmanna sér fræðslu árið 2012, 43.700 manns, og hafa ekki verið fleiri frá upphafi þessara mælinga árið 2003.

Konur stunda símenntun í meira mæli en karlar
Fleiri konur en karlar sækja sér fræðslu. Þannig sóttu 35,2% kvenna á aldrinum 16-74 ára einhvers konar fræðslu árið 2012, þar með talið nám í skóla, en 29,1% karla (tafla 1). Konur eru fleiri en karlar meðal þeirra sem sækja námskeið, stunda nám í skóla og sækja sér annars konar fræðslu. Lítill munur er á þátttöku kynjanna í símenntun meðal þeirra sem eingöngu hafa lokið grunnmenntun en konur sem hafa lokið framhaldsskóla eða háskóla stunda símenntun í mun meira mæli en karlar með sambærilega menntun.

Tafla 1. Þátttaka 16-74 ára í símenntun eftir kyni og menntunarstöðu 2012
  Alls  Karlar  Konur
Alls 32,1% 29,1% 35,2%
Grunnmenntun 31,2% 31,1% 31,3%
Framhaldsmenntun 30,4% 26,7% 36,1%
Háskólamenntun 35,8% 30,9% 39,5%


Tæp 42% atvinnulausra sóttu símenntun árið 2012
Þátttaka í símenntun er meiri meðal atvinnulausra og fólks utan vinnumarkaðar en meðal starfandi fólks. Þannig sóttu 34,7% 16-74 ára utan vinnumarkaðar sér fræðslu árið 2012, 41,9% atvinnulausra en 30,9% starfandi fólks. Formleg menntun í skóla er talin með en margir þeirra yngri sem eru utan vinnumarkaðar eru námsmenn.

Mynd 1 sýnir þátttöku atvinnulausra, starfandi og fólks utan vinnumarkaðar í símenntun. Á myndinni sést að á milli áranna 2008 og 2009 féll hlutfall atvinnulausra á aldrinum 16-74 ára sem sóttu sér menntun úr 47,2% í 35,9%. Hins vegar fjölgaði atvinnulausum sem sóttu sér menntun á sama tíma úr 2.600 í 4.700 en vegna þeirrar miklu fjölgunar atvinnulausra sem varð á milli þessara ára lækkaði hlutfall atvinnulausra í símenntun.

 

Þátttaka í símenntun utan skóla er meiri meðal þeirra sem hafa meiri menntun
Alls stunduðu 35.900 manns símenntun utan skóla, sækja t.d. námskeið, ráðstefnu eða fyrirlestur; 16,0% landsmanna á aldrinum 16-74 ára. Símenntun utan formlegs náms í skóla er meira sótt meðal þeirra sem hafa lokið meiri menntun. Í aldurshópnum 25-64 ára sóttu 18,6% þjóðarinnar einhvers konar símenntun utan skóla árið 2012, 30.000 manns. Meðal þeirra sem hafa lokið háskólamenntun var hlutfallið 28,4%, 15,4% meðal þeirra sem hafa lokið framhaldsskóla og 10,9% meðal þeirra sem aðeins hafa grunnmenntun að baki.

 


Þátttaka í símenntun mikil á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd
Ísland er í þriðja sæti 35 Evrópuþjóða þegar litið er á þátttöku 25-64 ára í símenntun árið 2012, með 27,3% þátttöku. Aðeins í Danmörku (31,6%) og Sviss (29,9%) er þátttakan meiri en á Íslandi. Meðaltal Evrópusambandslandanna 28 er 9,0%. Þátttaka í símenntun í Evrópu er meiri í norðvestur Evrópu en minni sunnar og austar í álfunni.

Um gögnin
Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vinnumarkaðsrannsóknin byggir á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Frá árinu 2003 er heildarúrtak vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar rúmlega 3.800 einstaklingar í hverjum ársfjórðungi og svarhlutfall 80-85%. Í úrtökuramma rannsóknarinnar eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar 16–74 ára sem skráðir eru í þjóðskrá og eru með lögheimili á Íslandi. Heildarúrtak ársins 2012 var 15.631 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 15.284 einstaklingar. Nothæf svör fengust frá 12.687 einstaklingum sem jafngildir 83,2% endanlegri svörun. Allar niðurstöður hafa verið vegnar eftir kyni og aldri.

Utan vinnumarkaðar teljast þeir sem hvorki eru starfandi né atvinnulausir.

Símenntun er skilgreind sem öll menntun sem einstaklingur sækir, hvort sem er formlegt nám í skóla eða menntun utan skóla, s.s. á námskeiði, fyrirlestri eða á ráðstefnu.

Talnaefni


 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.