Árið 2012 hafa 47.100 manns á aldrinum 25-64 eingöngu lokið grunnmenntun, þ.e. styttra námi en framhaldsskólastigi, samkvæmt  niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Það eru 29,3% íbúa og hefur fækkað úr 34,6% árið 2003. Alls hafa 35,8% íbúa mest lokið starfs- og framhaldsmenntun, þ.e. lokið námi á framhaldsskólastigi sem er a.m.k. tvö ár að lengd eða lokið námi á viðbótarstigi, 57.600 manns. Þá hafa 56.300 manns lokið háskólanámi, eða 35,0% íbúa á Íslandi á þessu aldursbili. Háskólamenntuðum hefur fjölgað nokkuð frá árinu 2003, þegar þeir voru 27,7% íbúa.

Mikill munur er á menntun íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Á höfuðborgarsvæðinu hafa 24,2% íbúa á aldrinum 25-64 ára eingöngu lokið grunnmenntun en 40,9% hafa lokið háskólamenntun. Utan höfuðborgarsvæðisins hafa 37,8% íbúa aðeins lokið grunnmenntun og 24,7% lokið háskólamenntun.

Menntunarstaða 25-64 ára 2012
  Alls  Karlar  Konur Höfuðborgar-svæði Lands-byggð
Grunnmenntun 29% 27% 31% 24% 38%
Framhaldsmenntun 36% 44% 28% 35% 37%
Háskólamenntun 35% 29% 41% 41% 25%
Alls 100% 100% 100% 100% 100%

 


 


Um gögnin
Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vinnumarkaðsrannsóknin byggir á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Frá árinu 2003 er heildarúrtak vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar rúmlega 3.800 einstaklingar í hverjum ársfjórðungi og svarhlutfall 80-85%. Í úrtökuramma rannsóknarinnar eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar 16–74 ára sem skráðir eru í þjóðskrá og eru með lögheimili á Íslandi. Heildarúrtak ársins 2012 var 15.631 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 15.284 einstaklingar. Nothæf svör fengust frá 12.687 einstaklingum sem jafngildir 83,2% endanlegri svörun. Allar niðurstöður hafa verið vegnar eftir kyni og aldri.

Talnaefni