Rúmlega fjórðungur nemenda nýtur stuðnings
Skólaárið 2010-2011 nutu 10.883 nemendur grunnskólans sérkennslu eða stuðnings, eða 25,6% allra nemenda. Það er fjölgun um 229 nemendur frá fyrra skólaári eða 2,1%. Þetta er hæsta hlutfall nemenda í sérkennslu frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands um sérkennslu skólaárið 2004-2005. Hlutfallslega flestir nemendur 5. bekkjar (10 ára nemendur) njóta stuðnings eða 28,1% af árganginum. Skólaárið 2009-2010 naut þessi sami bekkur einnig mestrar sérkennslu, þá í 4. bekk. Af þeim nemendum sem njóta stuðnings eru 61,4% drengir og 38,6% stúlkur. Er það svo til sama hlutfall og skólaárið 2009-2010. Flestir nemendur fá nú stuðning bæði inni í bekk og í sérkennsluveri. Nemendum sem njóta eingöngu stuðnings í bekk hefur fjölgað en nemendum sem aðeins njóta stuðnings í sérkennsluveri fækkaði um 801 frá fyrra ári. 

Í innsöfnun frá grunnskólum síðastliðið vor voru skólastjórnendur beðnir um að sundurgreina nánar þá nemendur sem nutu sérkennslu. Samkvæmt þessum upplýsingum eru 6.527 grunnskólanemendur með einhverja formlega greiningu. Tveir af hverjum þremur eru drengir eða 66,6%. Flestir þessara nemenda eru í 5. bekk (782) og 7. bekk (770).


Skólastjórnendur voru einnig beðnir um að skrá þá nemendur sem þurftu aðstoð vegna íslenskunáms, þar sem þeir höfðu annað móðurmál en íslensku. Þeir nemendur eru 1.442 talsins og dreifast nokkuð jafnt eftir aldri. Að meðaltali eru 79 drengir og 65 stúlkur í hverjum árgangi sem þurfa þessa aðstoð.

Fjölgun kennslustunda til sérkennslu og stuðnings
Skólaárið 2010-2011 var 43.428 kennslustundum á viku varið til sérkennslu og stuðnings í grunnskólum landsins. Þar af voru 18.003 kennslustundir sérkennara (41,4%) og 25.425 kennslustundir stuðningsfulltrúa (58,6%). Borið saman við síðastliðið skólaár, er hærra hlutfall nú unnið af sérkennurum. Skólaárið 2007-2008 voru kennslustundir við sérkennslu og stuðning flestar eða 44.490.

Allir árgangar ná viðmiðum laga um lágmarksstundir á viku
Skólaárið 2010-2011 fengu nemendur í 1.-10. bekk samanlagt 340,0 kennslustundir og hefur vikulegum kennslustundum fjölgað um 0,1 að meðaltali frá skólaárinu 2009-2010. Að meðaltali ná allir árgangar viðmiðum laga um lágmarkstundafjölda á viku.

Skóladagar eru 179,6 að meðaltali
Í lögum um grunnskóla frá árinu 2008 segir að árlegur starfstími nemenda í grunnskóla skuli á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Skóladagar nemenda skulu ekki vera færri en 180 á hverju skólaári. Skóladagar skiptast í kennsludaga, prófdaga og aðra daga. Með öðrum dögum er átt við þá daga þar sem skólastarf samkvæmt stundaskrá undir stjórn kennara fer ekki fram, t.d. þegar farið er í skólaferðalög og vettvangsferðir.

Meðalfjöldi skóladaga allra bekkja var 179,6 og er það fækkun um 0,2 daga frá fyrra ári. Í rúmlega 71% skóla eru skóladagar nemenda 180 talsins eða fleiri. Fæstir voru skóladagarnir 142 en flestir 200 talsins. Á síðastliðnu skólaári þurftu margir skólar að fella niður skólahald vegna veðurs um einn eða fleiri daga. Ekki er teljandi munur á fjölda skóladaga eftir bekkjum. Þá fækkaði starfsdögum kennara að meðaltali um 0,2 frá fyrra ári og kom sú fækkun fram á starfsdögum þeirra utan kennslutíma. Meðalfjöldi starfsdaga kennara á kennslutíma hélst óbreyttur milli ára.

Talnaefni