Starfsmönnum í skólum á háskólastigi fækkaði um 140

Starfsmönnum háskóla fækkaði um 140 á milli nóvember 2010 og nóvember 2011 (4,6%) og hafa ekki verið færri síðan skólaárið 2005-2006. Þá fækkaði stöðugildum háskólastarfsmanna um 108 (4,8%) frá fyrra ári. Hins vegar fjölgaði nemendum í skólum á háskólastigi um 1,7% frá skólaárinu 2010-2011.

Starfsmenn í skólum á háskólastigi voru 2.902 í 2.147 stöðugildum í nóvember 2011. Starfsmenn sem sinntu kennslu voru 2.018 í 1.297 stöðugildum. Konur voru 52,6% starfsmanna skóla á háskólastigi í 51,8% stöðugilda. Konum meðal starfsmanna háskóla fækkaði um 7,5% frá fyrra ári en körlum um 1,2%.

Starfsmenn í háskólum í nóvember 2011 voru lítið eitt færri en starfsmenn í nóvember 2009. Munurinn á fjölda starfsmanna haustin 2009-2011 liggur aðallega í mismunandi fjölda leiðbeinenda kennaranema. Þeir voru 18 árið 2009, 129 árið 2010 og enginn í nóvember 2011. Konur eru fjórir af hverjum fimm leiðbeinendum kennaranema.

Rúmur þriðjungur háskólakennara hefur doktorspróf
Rúmlega þriðjungur (33,7%) starfsmanna við kennslu í háskólum landsins í nóvember 2011 hafði doktorspróf, 673 kennarar í 582 stöðugildum. Kennurum með doktorspróf fjölgaði umtalsvert á síðasta áratug því skólaárið 2001-2002 höfðu 24,4% háskólakennara doktorspróf. Háskólakennarar sem höfðu lokið annarri háskólagráðu, s.s. meistaragráðu, voru fjölmennasti hópur starfsmanna við kennslu, 38,6% kennara en sé miðað við stöðugildi voru kennarar með doktorsgráðu fjölmennari. Háskólakennarar sem einungis höfðu grunnpróf af háskólastigi, s.s. Bachelor gráðu, voru 23,6% kennara. Mun fleiri karlar en konur meðal háskólakennara höfðu lokið doktorsprófi, eða 43,7% á móti 22,6% kvenkennara. Mun fleiri konur en karlar höfðu mest lokið annarri háskólagráðu, 45,5% kvenkennara en 32,2% karlkennara.

 


Fleiri stundakennarar en færri prófessorar
Rúmlega helmingur (58,7%) starfsfólks við kennslu voru aðjúnktar og aðrir stundakennarar, 1.216 talsins. Stöðugildi þessa hóps voru 40,3% af stöðugildum starfsmanna við kennslu. Stundakennurum fjölgaði um 41 frá síðasta skólaári. Prófessorum við kennslu fækkaði um 14 og lektorum um 31 en dósentum fjölgaði um 8 frá fyrra ári. Þá fækkaði starfsfólki við skrifstofustörf og tölvuvinnslu um 145 en sérfræðingum og sérhæfðu starfsfólki fjölgaði um 108.


Um gögnin
Gögn um starfsfólk í háskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og beint frá skólunum. Til starfsfólks á háskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvember 2011 hjá háskólum og sérskólum á háskólastigi. Til starfsfólks við kennslu teljast þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu í nóvember, s.s. vegna barneigna eða námsleyfis, eru ekki taldir meðal kennara, en teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni