FRÉTT MENNTUN 25. APRÍL 2006


Starfsmönnum við leikskóla fjölgaði um 32 og stöðugildum um 63

Í desember 2005 störfuðu 4.735 starfsmenn í 3.935 stöðugildum við leikskóla á Íslandi. Árið áður störfuðu 4.703 starfsmenn í 3.872 stöðugildum og hefur því starfsmönnum fjölgað um 32 milli ára. Körlum fækkaði um 4, en konum fjölgaði um 36. Stöðugildum hefur fjölgað meira en starfsmönnum eða um 63, og hafa því starfsmenn bætt við sig vinnu frá síðasta ári. Þegar litið er til ársins 1998 voru 41,5% starfsfólks í leikskólum í fullu starfi eða meira. Í desember sl. var þetta hlutfall orðið tæp 50% (49,6%). Starfsmönnum í fullu starfi hefur því fjölgað nokkuð hlutfallslega á þessu árabili.

Menntaðir leikskólakennarar aldrei fleiri
Starfsfólki við uppeldi og menntun barna sem lokið hafa uppeldismenntun fjölgar frá árinu 2004 og ófaglærðu fólki fækkar. Menntaðir leikskólakennarar eru hlutfallslega fleiri nú en nokkru sinni áður síðan Hagstofan hóf að safna þessum upplýsingum árið 1998. Nú eru 33,0% allra starfsmanna sem sinna uppeldi og menntun barna í leikskólum með leikskólakennarapróf. Auk þess hafa 0,8% starfsfólks við uppeldi og menntun lokið diplómanámi í leikskólakennarafræðum og 5,6% hafa aðra uppeldismenntun. Alls hefur því 39,4% starfsfólks lokið námi á sviði uppeldisfræða.

Fjölgun í elstu og yngstu aldurshópum starfsmanna
Þegar litið er á aldurskiptingu starfsmanna kemur fram að fjölmennasti aldurshópurinn er 30-39 ára. Frá árinu 1998 til 2004 var aldurshópurinn 20-29 ára fjölmennastur meðal leikskólastarfsmanna. Alls voru 168 starfsmenn yngri en 20 ára í desember 2005 en samsvarandi tala árið á undan var 105 starfsmenn. Hefur því starfsmönnum í þessum aldurshópi fjölgað um 63 eða um 60,0%. Starfsmenn sem eru sextugir eða eldri eru 230 eða 4,9% starfsmanna. Ekki hafa áður verið svo margir starfsmenn í þessum aldurshópi og hefur þeim fjölgað um 6,5% frá desember 2004. Starfsmenn sem eru sextugir eða eldri við uppeldi og menntun á leikskólum eru 3,9% starfsmanna á þessu sviði en sambærilegar tölur frá grunnskólum sýna að 7,1% starfsmanna við kennslu eru sextugir eða eldri.


Aukið brottfall starfsmanna annað árið í röð 
Brottfall starfsmanna á milli áranna 2004 og 2005 var 25,8%. Mest ber á brottfalli meðal ófaglærðra starfsmanna. Alls hættu 839 ófaglærðir starfsmenn við uppeldi og menntun störfum á milli þessara tveggja ára eða þriðjungur af ófaglærðum starfsmönnum við uppeldi og menntun í desember 2004. Hlutfallslega er mest brottfall meðal starfsmanna við ræstingar, en þar hefur meira en helmingur (50,9%) starfsmanna í desember 2004 hætt störfum í desember 2005. Brottfallið er hlutfallslega minnst meðal leikskólakennara, aðstoðarleikskólastjóra og deildarstjóra. Það skal tekið fram að hér um tvær punktmælingar að ræða. Því koma starfsmenn sem hófu störf árið 2005 og hættu störfum fyrstu 11 mánuði ársins ekki fram í tölunum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.