FRÉTT MENNTUN 23. ÁGÚST 2023

Alls starfaði 1.581 leikskólakennari í leikskólum á Íslandi í desember 2022. Auk þess störfuðu 210 aðrir kennarar með kennsluréttindi í leikskólum landsins. Samtals voru menntaðir kennarar 26,6% starfsfólks við uppeldi og menntun barna í desember 2022 og lækkaði hlutfallið lítillega frá árinu á undan. Alls höfðu 1.060 starfsmenn við uppeldi og menntun leikskólabarna lokið annarri uppeldismenntun en ófaglært starfsfólk var rúmlega helmingur (57,6%) starfsfólks í desember 2022.

Einn af hverjum átta starfsmönnum við uppeldi og menntun leikskólabarna hefur lokið meistaragráðu
Hagstofan birtir nú ítarlegri upplýsingar en áður um háskólamenntun starfsfólks við uppeldi og menntun í leikskólum þar sem háskólamenntun er greind eftir prófgráðum. Í desember 2022 voru 35,0% starfsfólks við uppeldi og menntun með grunnpróf á háskólastigi og 12,0% með meistaragráðu eða meiri menntun. Rúmur helmingur (53,0%) var með menntun á framhaldsskólastigi eða minni menntun. Samsvarandi tölur úr grunnskólum sýna að 63,2% starfsfólks við kennslu í október 2022 voru með grunnpróf á háskólastigi og 31,4% með meistaragráðu eða meiri menntun.

Hlutfall starfsfólks leikskóla sem hefur a.m.k. lokið meistaragráðu var hærra á meðal leikskólastjóra (42,1%) en á meðal aðstoðarleikskólastjóra (28,7%) og deildarstjóra og kennara (10,2%). Til að fá leyfisbréf sem kennari til starfa í leikskóla þarf núna að hafa lokið meistaragráðu en eldri leyfisbréf gilda áfram.

Alls störfuðu 7.119 í leikskólum í desember 2022 og hafði fjölgað um 225 (3,3%) frá fyrra ári sem er sama hlutfallslega fjölgun og hjá leikskólabörnum á sama tíma. Stöðugildum starfsmanna fjölgaði um 4,0% og voru 6.274.

Rúmur helmingur leikskólakennara er yfir fimmtugu
Rúmlega helmingur leikskólakennara (51,4%) er 50 ára og eldri og hefur hlutfall þessa aldurshóps á meðal leikskólakennara farið ört vaxandi undanfarin ár. Árið 2004 voru rúm 70% kennara á aldrinum 30-49 ára en hefur fækkað hlutfallslega ár frá ári og voru 46,7% árið 2022. Með lengingu náms leikskólakennara fækkaði kennurum í yngsta aldurshópnum og voru aðeins 2,0% leikskólakennara haustið 2022. Þessar tölur eiga einungis við um kennara sem hafa menntun sem leikskólakennarar, ekki aðra kennara sem starfa í leikskólum.

Aldrei hafa fleiri karlar starfað á leikskólum
Karlkyns starfsmenn í leikskólum voru 611 í desember 2022, 8,6% starfsfólks, og hafa aldrei verið fleiri. Árið 1999 störfuðu 70 karlmenn í leikskólum landsins.

Rúmlega 260 leikskólar starfandi
Í desember 2022 voru 264 leikskólar starfandi sem er fjölgun um fjóra frá fyrra ári. Sveitarfélögin ráku 221 leikskóla en 43 leikskólar voru reknir af öðrum aðilum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.