Starfsmönnum í skólum á háskólastigi fjölgar um 119 en stöðugildum fækkar um 30
Starfsmenn í skólum á háskólastigi voru 3.042 í 2.255 stöðugildum skólaárið 2010-2011. Í þessum tölum eru allir starfsmenn taldir, jafnt þeir sem sinna kennslu sem og öðrum störfum. Starfsmenn sem sinntu kennslu voru 2.128 í 1.355 stöðugildum. Starfsmönnum háskóla fjölgar um 119 milli ára (2,9%) en þrátt fyrir það fækkar stöðugildum starfsmanna um 30 (1,3%). Fleiri starfsmenn koma að kennslu nú en fyrir ári, eða 178 (8,9% fjölgun), á meðan stöðugildum starfsmanna við kennslu fjölgar einungis um 14 (1,1%). Konur eru 54,2% starfsmanna skóla á háskólastigi í 52,9% stöðugilda.

Fjölgun starfsmanna er nánast öll meðal starfsmanna sem vinna minna en hálft stöðugildi. Kennurum í minna en hálfu stöðugildi fjölgar um 181 á milli ára (24,3%) en á sama tíma fækkar kennurum um 25 sem eru í fullu starfi eða meira (3,0%).

 

Fleiri prófessorar, stundakennarar og æfingakennarar en færri dósentar og lektorar
Rúmlega helmingur (53,9%) starfsfólks við kennslu eru aðjúnktar og stundakennarar, 1.175 talsins. Stöðugildi þessa hóps eru 535 af 1.355 stöðugildum starfsmanna við kennslu, 39,5%. Stundakennurum hefur fjölgað um 66 frá síðasta ári. Framhaldsskólakennarar og leiðbeinendur kennaranema (sk. æfingakennarar) við kennslu voru 168 í nóvember 2010, 104 fleiri en árið áður. Stöðugildum stundakennara og æfingakennara fjölgar þó aðeins um 37. Prófessorum við kennslu fjölgaði um 34 og 20 stöðugildi en á sama tíma fækkar í hópi lektora og dósenta um 30 einstaklinga og 46 stöðugildi. Fjölgun kennara frá fyrra ári hefur því aðallega orðið meðal stundakennara og æfingakennara sem flestir eru í hlutastarfi.

Starfsfólki yfir sextugt fjölgaði mest frá fyrra ári
Starfsmönnum háskóla fjölgar í öllum aldurshópum en þó sýnu mest í elsta aldursflokknum, 60 ára og eldri, þar sem fjölgar um 11,0%. Ef aðeins er litið á starfsfólk við kennslu fjölgaði einnig í öllum aldurhópum kennara en sýnu mest í elsta og yngsta aldursflokknum. Starfsmenn háskóla eru flestir á aldrinum 40-49 ára eða 827 í 619 stöðugildum. Næst flestir eru á aldrinum 50-59 ára eða 819 í 655 stöðugildum. Samtals er rúmur helmingur (54,1%) starfsmanna skóla á háskólastigi á aldrinum 40-59 ára. Fyrir réttum áratug voru 33,9% háskólakennara 50 ára og eldri en í nóvember 2010 eru kennarar í þessum aldurshópi 41,5% háskólakennara. Á einum áratug hefur kennurum 50 ára og eldri því fjölgað um 7,6 prósentustig.

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í háskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Til starfsfólks á háskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvember 2010 hjá háskólum og sérskólum á háskólastigi. Til starfsfólks við kennslu teljast þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu í nóvember, s.s. vegna barneigna eða námsleyfis, eru ekki taldir meðal kennara, en teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni