FRÉTT MENNTUN 09. SEPTEMBER 2010


Starfsmönnum í skólum á háskólastigi fækkar og eru nú tæplega 3.000
Starfsmönnum í skólum á háskólastigi hefur fækkað um 125 frá síðasta skólaári (4,1%) og stöðugildum um 54 (2,3%). Á sama tímabili fjölgaði nemendum í skólum á háskólastigi um 5,8%. Frá því að gagnasöfnun Hagstofu Íslands hófst fyrir áratug hefur stöðugildum starfsfólks í skólum á háskólastigi fjölgað ár frá ári þar til nú. Starfsmenn í nóvember 2009 voru 2.923 í 2.285 stöðugildum. Í þessum tölum eru allir starfsmenn taldir, jafnt þeir sem sinna kennslu sem öðrum störfum. Starfsmenn sem sinna kennslu voru 1.950 í 1.341 stöðugildum en í nóvember 2008 voru þeir 2.039 í 1.334 stöðugildum. Starfsmönnum við kennslu hefur því fækkað um 89, eða 4,4%, en stöðugildum starfsmanna við kennslu hins vegar fjölgað um sjö (0,5%) á tímabilinu.

 

Lektorum, aðjúnktum og stundakennurum fækkar mest en prófessorum fjölgar
Rúmlega helmingur (55,4%) starfsfólks við kennslu eru aðjúnktar og stundakennarar. Stöðugildi þessa hóps eru 520 af 1.341 stöðugildi starfsmanna við kennslu eða 38,8%. Frá fyrra ári hefur lektorum í hópi starfsmanna fækkað um 38 (12,4%) og aðjúnktum og stundakennurum um 113 (9,2%). Á sama tíma hefur fjölgað um 15 í hópi prófessora (5,3%). Þá hefur þeim starfsmönnum fækkað á milli ára sem vinna minna en 0,75 stöðugildi en þeim hefur fjölgað sem vinna 0,75-1,25 stöðugildi. Líklegt er að í kjölfar samdráttar hafi lausráðnum starfsmönnum fækkað en fastráðið starfsfólk með lengri starfsaldur haldi stöðu sinni. Prófessorar, dósentar og lektorar eru á bilinu 12-14% háskólakennara hver starfsstétt fyrir sig. Að meðtöldum aðjúnktum og stundakennurum eru stöðugildi allra þessara starfshópa við kennslu 93,9% stöðugilda við kennslu en 6,1% eru mönnuð af sérfræðingum, sérhæfðu starfsfólki og stjórnendum.

Þegar háskólakennarar eru taldir eftir starfsheiti og kyni má sjá að kynjamunur er mestur meðal prófessora. Karlar eru 75,4% prófessora en konur 24,6%. Í hópi dósenta eru karlar 64,0% og í hópi lektora eru karlar 50,6%. Meðal lausráðinna stundakennara og aðjúnkta eru konur fleiri eða 53,5% en karlar eru 46,5%.

 


Starfsfólki yfir sextugt fjölgaði frá fyrra ári en fækkaði í öðrum aldursflokkum
Starfsmönnum háskóla sem eru sextugir og eldri fjölgaði um 19 frá nóvember 2008 en í öðrum aldursflokkum fækkaði. Ef aðeins er litið á starfsfólk við kennslu fjölgaði einnig í aldurshópi kennara undir þrítugu. Starfsmenn háskóla eru flestir á aldrinum 40-49 ára eða 803 í 630 stöðugildum. Næst flestir eru á aldrinum 50-59 ára eða 787 í 660 stöðugildum. Samtals er rúmur helmingur (54,4%) starfsmanna skóla á háskólastigi á aldrinum 40-59 ára.

 

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í háskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Til starfsfólks á háskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvember 2009 hjá háskólum og sérskólum á háskólastigi. Til starfsfólks við kennslu teljast þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu í nóvember, s.s. vegna barneigna eða námsleyfis, eru ekki taldir meðal kennara, en teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.