FRÉTT MENNTUN 30. ÁGÚST 2007


Starfsmenn skóla á háskólastigi voru tæplega 3.000
Starfsmenn skóla á háskólastigi í nóvember 2006 voru 2.990 í 2.198 stöðugildum. Ári áður, þ.e. í nóvember 2005 voru starfsmennirnir 2.756 í 2.135 stöðugildum. Á milli ára hefur starfsmönnum því fjölgað um 234, eða 8,5% en einungis um 63 stöðugildi, eða 3,0%. Í þessum tölum eru allir starfsmenn taldir, jafnt þeir sem sinna kennslu sem öðrum störfum. Starfsmenn sem sinna kennslu voru 2.052 í 1.338 stöðugildum í nóvember 2006 en ári fyrr voru þeir 1.832 í 1.247 stöðugildum. Á milli ára hefur háskólakennurum því fjölgað um 220, eða 12,0% en stöðugildum um 91, eða 7,3%.

Starfsmönnum í hlutastarfi við kennslu á háskólastigi fer fækkandi
Með því að bera saman fjölda starfsmanna annars vegar og fjölda stöðugilda þeirra hins vegar má ljóst vera að drjúgur meirihluti háskólakennara er í hlutastarfi. Í nóvember 2006 voru sex af hverjum tíu háskólakennurum með minna starfshlutfall en sem nemur einu stöðugildi. Langflestir þeirra, eða 893 (43,5%), eru í minna en hálfu starfi. Skólaárið 2000-2001 voru sjö af hverjum tíu háskólakennurum í hlutastarfi. Hlutfallslega hefur því háskólakennurum í hlutastarfi fækkað, en hinum sem eru í fullu starfi eða meira hefur fjölgað á tímabilinu (sjá mynd 1).

Rúmlega helmingur (52,6%) starfsfólks við kennslu eru aðjúnktar og stundakennarar. Stöðugildi þessa hóps eru 535 af 1.334 stöðugildum starfsmanna við kennslu eða 40,1%. Prófessorar, dósentar og lektorar eru um 11% háskólakennara hver starfsstétt fyrir sig í 15,7-17,5% stöðugilda.

Konum fjölgar meðal prófessora
Kynjamunur eftir störfum var svipaður í nóvember 2006 og undanfarin ár. Karlmenn voru fleiri í stöðum rektora, prófessora og dósenta. Meðal lektora, aðjúnkta og lausráðinna stundakennara voru konur hins vegar fleiri en karlar. Konur í hópi rektora voru tvær eins og undanfarin ár en karlar átta talsins. Af 236 prófessorum voru 44 konur eða 18,6% og hefur konum fjölgað um 1,2 prósentustig í hópi prófessora frá fyrra ári.

Í nóvember 2006 voru karlar 51,9% háskólakennara í 750 stöðugildum en konur 48,1% starfsmanna í 588 stöðugildum. Háskólastigið er eina skólastigið þar sem karlar eru í meirihluta meðal starfsfólks við kennslu en á neðri skólastigunum eru konur nú fleiri en karlar meðal kennara.


 

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í háskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Til starfsfólks á háskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvember 2006 hjá háskólum og sérskólum á háskólastigi. Til starfsfólks við kennslu teljast þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu í nóvember, s.s. vegna barneigna eða námsleyfis, eru ekki taldir meðal kennara, en teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.