FRÉTT MENNTUN 25. FEBRÚAR 2010


Starfsfólki í grunnskólum fækkar í fyrsta skipti frá 2004
Haustið 2009 eru 7.763 starfsmenn í 7.116 stöðugildum í grunnskólum á Íslandi. Þar af eru 4.978 starfsmenn við kennslu í 4.792 stöðugildum. Starfsfólki fækkaði á milli ára í fyrsta skipti frá haustinu 2004. Starfsmönnum við kennslu, þ.e. skólastjórnendum, deildarstjórum og kennurum fækkar um 123, sem er fækkun um 2,4%. Stöðugildum sama hóps fækkar um 224, sem er fækkun um 4,5%. Þegar starfshlutfall starfsmanna við kennslu og stjórnun er skoðað nánar sést að 431 færri einstaklingar eru nú skráðir í meira en fullt starf. Svo virðist sem yfirvinna hafi minnkað hjá þessum hópi frá hausti 2008. Öðrum starfsmönnum grunnskólans en starfsfólki við kennslu fjölgaði um tvo frá hausti 2008 og fjölgar stöðugildum þeirra um átta á milli ára.

Minna brottfall meðal starfsmanna við kennslu
Tæplega 800 (797) starfsmenn við kennslu haustið 2008 eru ekki starfandi í grunnskólanum haustið 2009, eða 15,6% starfsmanna. Þeir hafa hætt sökum aldurs, eru í leyfi eða hafa horfið til annarra starfa. Þetta er minna brottfall heldur en mælst hefur í tölum Hagstofunnar undanfarin þrjú ár. Umrædd ár hefur brottfallið verið 17,0-17,2%. Brottfall úr kennslu er hlutfallslega meira meðal þeirra sem eru í hlutastarfi en þeirra sem eru í fullu starfi.

Karlmönnum fer fækkandi meðal starfsfólks við kennslu
Ekki hafa áður mælst færri karlar við kennslu í grunnskólum á Íslandi síðan gagnasöfnun Hagstofunnar hófst árið 1997. Haustið 2009 voru 1.011 karlmenn við kennslu og stjórnun í grunnskólanum. Þeir voru flestir haustið 2002 en þá voru þeir 1.110. Hlutfall karlmanna hefur á þessu árabili farið lækkandi frá því að vera 26,0% árið 1998 niður í 20,3% haustið 2009. Eina starfsstéttin innan grunnskólans þar sem karlar eru í meirihluta eru húsverðir, rétt eins og undanfarin ár.

Kennarar með kennsluréttindi hafa aldrei verið fleiri
Aldrei áður í mælingum Hagstofunnar hefur hlutfall kennara með réttindi mælst hærra. Undanfarin 10 ár hefur hlutfall kennara með réttindi verið 80-87%. Haustið 2009 eru 91,2% kennara með kennsluréttindi. Haustið 2008 voru 776 manns við kennslu án kennsluréttinda en haustið 2009 er samsvarandi tala komin niður í 437. Hæst er hlutfall réttindakennara á landinu á höfuðborgarsvæðinu. Í Reykjavík er hlutfallið hæst en þar hafa 97,3% kennara kennsluréttindi. Á Norðurlandi eystra er hlutfall réttindakennara komið yfir 90% en það mældist 90,4% haustið 2009. Lægst er hlutfall réttindakennara á Vestfjörðum, 74,5%, og 77,0% á Austurlandi. Vert er að geta þess að á Vestfjörðum hefur hlutfall réttindakennara hækkað um tæplega 6 prósentustig frá síðastliðnu ári og á Austurlandi um rúmlega 10 prósentustig.

Meðalaldur kennara heldur áfram að hækka
Haustið 2009 eru 56,8% kennara og skólastjórnenda á aldrinum 30-49 ára. Sé aldurshópnum skipt í 5 ára aldursbil eru flestir í aldurshópnum 35-39 ára eða 776 manns. Þegar aldur kennara er borinn saman við árið á undan hefur starfsmönnum yngri en 30 ára fækkað um 145 og á sama tíma hefur kennurum eldri en 55 ára fjölgað um 22. Meðalaldur starfsmanna við kennslu er nú 44,6 ár og hefur hækkað um 2,2 ár á síðastliðnum 7 árum.

Leikskólar og grunnskólar reknir sem ein skólastofnun
Í kjölfar laga um leikskóla og grunnskóla frá árinu 2008 er orðið algengara að leikskólar og grunnskólar séu reknir sem ein skólastofnun með einum stjórnanda. Í gagnasöfnun haustið 2009 eru um það bil tugur stofnana sem þetta á við um. Í nokkrum tilvikum er tónlistarskóli líka hluti af skólastofnuninni. Þetta rekstrarform er algengara í minni sveitarfélögum á landsbyggðinni en í stærri sveitarfélögum þó svo að undantekning sé til frá því.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.