Starfsfólki í framhaldsskólum fækkar í fyrsta skipti á tíu ára tímabili
Haustið 2010 voru 2.513 starfsmenn í framhaldsskólum landsins í 2.412 stöðugildum. Þar af voru 1.852 starfsmenn við kennslu í 1.846 stöðugildum. Starfsmönnum hefur fækkað um 69 manns frá fyrra ári en sé eingöngu miðað við starfsmenn sem sinna kennslu fækkar um 59 manns á milli ára. Fækkun stöðugilda milli ára er enn meiri en fækkun einstaklinga. Sé miðað við alla starfsmenn framhaldsskólans fækkar stöðugildum um 152 en sé miðað við starfsmenn sem sinna kennslu fækkar um 134 stöðugildi. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að á undanförnum áratug hefur starfsmönnum í framhaldsskólum fjölgað ár frá ári þar til nú. Að jafnaði fjölgaði um tæplega 60 starfsmenn á ári allt til skólaársins 2008-2009. Frá skólaári 2000-2001 til og með skólaárinu 2008-2009 hafði starfsmönnum framhaldsskóla fjölgað um 464 einstaklinga og stöðugildum um 461. Fjöldi starfsmanna og stöðugilda stóð hins vegar nánast í stað á milli skólaáranna 2008-2009 og 2009-2010.  


Tæplega 85% kennara í framhaldsskólum hafa kennsluréttindi, ekki fleiri síðasta áratug
Alls höfðu 84,9% starfsmanna við kennslu í nóvember 2010 kennsluréttindi. Hlutfallið hefur hækkað um 13,6 prósentustig á einum áratug, úr 71,3% skólaárið 2000-2001. Með réttindakennara er átt við þann starfsmann við kennslu sem hefur leyfisbréf frá menntamálaráðuneytinu til að kalla sig framhaldsskólakennara. Hlutfall réttindakennara hefur ekki verið svona hátt frá því að gagnasöfnun Hagstofunnar hófst fyrir rúmlega áratug. Merkja má talsverðan mun á kynjum en hærra hlutfall kvenkennara hefur kennsluréttindi. Öll árin sem gagnasöfnun Hagstofu um starfsmenn skóla hefur staðið hafa hlutfallslega fleiri konur haft kennsluréttindi en karlar. Á síðasta skólaári höfðu 87,8% kvenkennara réttindi á móti 81,7% karlkennara, sem er sex prósentustiga munur. Mestur var munur á milli kynjanna skólaárið 2009-2010 eða 9,8 prósentustig en minnstur skólaárið 2006-2007 þegar hann var 1,4 prósentustig.

 

Ríflega fjórðungur kennara með meistaragráðu eða doktorsgráðu og hafa ekki verið fleiri
Ríflega fjórðungur framhaldsskólakennara (27,6%) er með framhaldsmenntun úr háskóla, þ.e. meistaragráðu, doktorsgráðu eða sambærilega menntun. Kennurum með framhaldsmenntun hefur fjölgað um 2,2 prósentustig frá fyrra skólaári og hefur hlutfall framhaldsskólakennara með framhaldsmenntun ekki verið svo hátt frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands fyrir ríflega áratug. Sextíu og átta prósent framhaldsskólakennara hafa eingöngu lokið grunnprófi úr háskóla eða sambærilegum prófum en dæmi um slík próf eru t.d. bakkalárpróf. Rúmlega 4% kennara hafa minni menntun eða að ekki er vitað um menntun þeirra. Skólaárið 2000-2001 höfðu 16,4% framhaldsskólakennara framhaldsmenntun úr háskóla. Kennurum með framhaldsmenntun úr háskóla hefur því fjölgað um 11,2 prósentustig á síðasta áratug.

 


Kennurum yfir fimmtugt fjölgar
Framhaldsskólakennarar eru fjölmennastir í aldurshópnum 50-59 ára eða 32,5% starfsmanna við kennslu í nóvember 2010. Fækkun kennara frá fyrra ári (59) dreifist á alla aldurshópa nema flokk 60 ára og eldri en þar fjölgar kennurum um 7. Konur eru talsvert fleiri en karlar í aldurshópum undir fimmtugu en karlar eru fleiri í eldri aldursflokkum.

 

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í framhaldsskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Viðmiðunartími gagna er nóvember fyrir þau gögn sem safnað hefur verið fyrir undanfarin skólaár. Árin 2001–2004 var gögnum safnað í marsmánuði en fyrir árin 1999 og 2000 í febrúarmánuði. Til starfsfólks á framhaldsskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvember 2010. Starfsfólk við kennslu eru allir þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu á viðmiðunartímanum, s.s. vegna barneigna- eða námsleyfis, eru ekki taldir sem starfsmenn við kennslu. Þeir teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni