FRÉTT MENNTUN 30. ÁGÚST 2007


Meirihluti framhaldsskólakennara eru konur
Haustið 2006 voru 2.494 starfsmenn í framhaldsskólum landsins í 2.491 stöðugildi. Þar af sinntu 1.869 starfsmenn kennslu í 1.944 stöðugildum. Bæði almennum starfsmönnum og starfsmönnum við kennslu hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og í réttu hlutfalli við fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi. Skólaárið 2000-2001 voru starfsmenn við kennslu 1.534 í 1.608 stöðugildum. Starfsmönnum við kennslu á þessu tímabili hefur fjölgað um 335 eða 21,8% og stöðugildum um 336 eða 20,9%. Nemendum á framhaldsskólastigi hefur á sama tíma fjölgað um 20,3% og má því segja að fjölgun starfsmanna við kennslu haldist í hendur við fjölgun nemenda.

Það vekur athygli hve hlutur kvenna hefur vaxið á þessu tímabili. Konur við kennslu voru 702 eða 45,8% starfsmanna skólaárið 2000-2001. Skólaárið 2006-2007 voru konur ríflega helmingur starfsmanna við kennslu eða 52,4%. Á þessu tímabili hefur konum fjölgað um tæplega 40% en körlum um tæp 7% meðal starfsfólks við kennslu í framhaldsskólum.

 

Réttindakennurum á landsbyggðinni fjölgar
Framhaldsskólar utan höfuðborgarsvæðisins hafa löngum haft hlutfallslega færri réttindakennara innan sinna vébanda en skólar á höfuðborgarsvæðinu. Í nóvember 2006 var staðan hins vegar sú að hlutfallslega fleiri réttindakennarar störfuðu í skólum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Með réttindakennara er átt við þann starfsmann við kennslu sem hefur leyfisbréf frá menntamálaráðuneytinu til að kalla sig framhaldsskólakennara. Alls höfðu 76,1% starfsmanna við kennslu í nóvember 2006 kennsluréttindi. Í nóvember 2005 var hlutfall réttindakennara hins vegar 78,7% . Hlutfall réttindakennara á landinu öllu hefur því lækkað sem nemur 2,6 prósentustigum á milli þessara ára.

Upplýsingar liggja fyrir um réttindi 1.565 starfsmanna við kennslu skólaárið 2000-2001. Af þeim voru 977 starfandi í skólum á höfuðborgarsvæðinu en 588 á skólum utan höfuðborgarsvæðisins. Hlutfall réttindakennara í skólum á höfuðborgarsvæðinu var 77,4% á þessum tíma en 62,6% í skólum utan höfuðborgarsvæðisins. Skólaárið 2006-2007 var hlutfall réttindakennara í skólum utan höfuðborgarsvæðisins komið í 78,3% og hefur því hækkað um tæp 16 prósentustig frá 2000-2001. Hlutfall réttindakennara á höfuðborgarsvæðinu skólaárið 2006-2007 var 75,2% og hefur því lækkað um rúm tvö prósentustig á sama tíma. Þess ber að geta að í þessum tölum er hlutfall reiknað af fjölda starfsmanna. Sé miðað við stöðugildi starfsmanna breytist myndin höfuðborgarsvæðinu í vil. Hlutfall réttindakennara á höfuðborgarsvæðinu skólaárið 2006-2007 reiknað af stöðugildum var 85,2% en hlutfall réttindakennara utan höfuðborgarsvæðisins 84,9%. Hvort heldur er miðað við fjölda starfsmanna við kennslu eða stöðugildi þeirra er ljóst að umtalsverð breyting hefur orðið á stöðu réttindamála starfsmanna við kennslu í skólum á landsbyggðinni.


Í gögnum Hagstofunnar um starfsmenn í framhaldsskólum má sjá að undanfarin ár hefur starfsmönnunum í hlutastarfi fjölgað meira en starfsmönnum í  fullu starfi. Starfsmönnum við kennslu sem starfa í minna en hálfu stöðugildi hefur þannig fjölgað um 30,3% á undanförnum tveimur árum en á sama tíma hefur starfsmönnum sem eru í 1,0-1,5 stöðugildum aðeins fjölgað um 7,9%. Þetta skýrir að einhverju leyti að réttindakennurum fækkar hlutfallslega á milli síðustu ára, þar sem mun fleiri starfsmenn eru réttindalausir í hópi starfsfólks í hlutastarfi en hinna sem eru í fullu starfi.

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í framhaldsskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Viðmiðunartími gagna er nóvember fyrir þau gögn sem safnað hefur verið fyrir undanfarin þrjú skólaár. Árin 2001–2004 var gögnum safnað í marsmánuði en fyrir árið 2000 í febrúarmánuði. Til starfsfólks á framhaldsskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvember 2006. Starfsfólk við kennslu teljast allir þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu á viðmiðunartímanum, s.s. vegna barneigna- eða námsleyfis, eru ekki taldir sem starfsmenn við kennslu. Þeir teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.